152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:06]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Forseti. Já, ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Mig langar að nota seinni tvær mínúturnar sem ég hef hér til að beina sjónum að öðrum þætti en halda mig þó við nýsköpun. Það er ljóst að talsverður halli hefur verið varðandi dreifingu fjármagns til nýsköpunarverkefna á Íslandi. Þá er það svo að það hallar gríðarlega á konur. Konur eru að mennta sig á sviði nýsköpunar, svo sem í vísindum, tækni og verkfræði. Konur eru líka að sækja um styrki en virðast einhverra hluta vegna ekki komast að. Eins er vert að benda á að á undanförnum árum hafa styrkir til nýsköpunar, t.d. í gegnum Tækniþróunarsjóð, ekki skilað sér í nógu miklum mæli á landsbyggðina. Mig langar líka aðeins að velta upp gagnrýni á styrkjakerfið. Lóu-sjóðurinn er mjög góður, af því að hæstv. ráðherra nefndi hann. Eftir því sem sjóðunum fjölgar, þeim mun fleiri sjóði sem þarf að sækja í til að fá fjármagn, verður ferlið snúnara. Þá fer meiri vinna í að sækja um, jafnvel fyrir lítil fyrirtæki, og það tekur tíma og kraft frá fyrirtækinu. Umsóknarferlið er þá oft mjög flókið og það verður til þess að kerfið verður kannski óskilvirkara. Það kemur minna fjármagn og fyrirtæki þurfa að leggja miklu meiri vinnu í að nálgast það. Mig langar að spyrja ráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af þeirri stöðu og hvað ráðherra geti gert til að bæta þennan halla.