152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Mig langaði einmitt til að taka nýsköpun upp við hæstv. nýsköpunarráðherra í samhengi við þá hugmyndafræði sem mér sýnist að verði leiðarstef í ráðuneyti hennar, að íslenskt hugvit eigi að verða stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar og þá í samhengi við þann veruleika sem við sjáum á úthlutunum úr sjóðum fram til þessa, þ.e. að konur í nýsköpun lýsa því að það halli á þær varðandi aðgengi að fjármagni. Ég spyr hvort ráðherra telji að til greina komi, við úthlutun fjárveitinga í gegnum þessa opinberu aðila, eins og Kríu, Rannís og aðra sjóði, að beinlínis verði gerðar kröfur um tiltekin kynjahlutföll, að teknu tilliti til annarra sjónarmiða. Við þekkjum hvernig svona regluverk er smíðað þegar við erum að reyna að vinna gegn kynjahallanum. Ég held að það sé óumdeilt á þessu sviði að það hallar á konur þrátt fyrir að ýmis teikn séu á lofti, eins og hæstv. ráðherra fór yfir. En kæmi til álita að farið yrði í konkret aðgerðir, í gegnum reglugerðir eða lög, t.d. um Kríu, svo að litið verði til kynjasjónarmiða og samsetningar í fyrirtækjum eða hjá þeim aðilum sem þangað sækja um fjármagn?