152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:27]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra þá hafa nú komið hingað a.m.k. 1.000 manns frá Úkraínu. Nú er þessi fjármálaáætlun lögð fram eftir að stríð brestur á og mér finnst pínulítið sérkennilegt að þrátt fyrir þá stöðu sé einhvern veginn gert ráð fyrir, í áætluninni sem við ræðum hér og tökum marga þingdaga í að ræða, lækkun framlaga til þessa málefnasviðs — ja, eða framlögin standa svo gott sem í stað. Sviðsstjóri verndarsviðs hjá Útlendingastofnun var í viðtali á Rás 2 í morgun og sagði frá úrræði sem opnaði í Domus Medica í gær, móttökumiðstöð þar sem saman eru komin lögreglan, Útlendingastofnun, Fjölmenningarsetur og heilsugæslan. Hugsunin að baki því er að einstaklingar geti sótt sér alla nauðsynlega þjónustu á einum stað. Það hefur komið fram að þetta úrræði sé hugsað til framtíðar. Hvernig sér ráðherra fyrir sér að þetta geti fúnkerað almennilega ef ekki er gert ráð fyrir auknum framlögum til einmitt þessara mála? Verður ekki að vera meiri fyrirsjáanleiki í þessum efnum? Er fjármálaáætlunin að þessu leyti, þegar kemur að málefnum fólks á flótta, bara strax orðin úrelt þótt hún hafi verið lögð fram einhverjum vikum eftir að stríð brast á í Evrópu?