152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:32]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Nefnd um eftirlit með lögreglu var sett á fót 2017 og síðan þá hafa þrír nefndarmenn og einn starfsmaður farið með þau verkefni sem þar eru. Í upphafi var talið nægjanlegt að hafa einn starfsmann í 50% starfshlutfalli en fljótt varð ljóst að það var ekki nóg og viðkomandi var kominn í 100% starfshlutfall við lok árs. Þá er einnig áætlað við stofnun nefndarinnar að það yrðu um 30 mál á ári, en síðan þá hefur málafjöldinn verið um og yfir 100. Mál nefndarinnar eru þyngri en í upphafi og hefur nefndin ítrekað bent á að hún þurfi a.m.k. tvö stöðugildi lögfræðinga, ekki síst til að stytta málsmeðferðartíma nefndarinnar og gera meðferð hennar skilvirkari. Nefndin hefur spurt hvort auka eigi slagkraft nefndarinnar og efla hlutverk og heimildir hennar, en slíkt er háð pólitískri stefnumótun og fjárveitingum. Í fjármálaáætlun segir m.a. að á síðasta ári hafi verið gerðar breytingar á lögreglulögum í þeim tilgangi að auka skilvirkni í störfum nefndar um eftirlit með lögreglu og auka heimildir hennar. Efla þurfi enn frekari ytra eftirlit með störfum lögreglu og samhliða því styrkja innra gæðaeftirlit með starfsemi lögreglu þannig að tryggt verði að unnið sé eftir lögum, reglum og verkferlum. Það skiptir miklu máli til að tryggja öryggi lögreglumanna við störf og svo hægt sé að veita bestu mögulegu þjónustu og hæsta mögulega öryggisstig. Þetta var varfærin lagabreyting sem var vissulega gerð en betur má ef duga skal og þrátt fyrir að nefndin hafi bent á það frá 2018 að fjölga þurfi stöðugildum í nefndinni er enn í dag bara einn starfandi lögfræðingur hjá nefndinni.

Því langar mig að spyrja dómsmálaráðherra hvernig hann ætli sér að efla eftirlit með störfum lögreglu. Felur það í sér aukna fjárveitingu til nefndarinnar og aukastöðugildi? Þörfin er svo sannarlega til staðar og mikilvægt er að við eflum hlutverk nefndarinnar, lögreglumönnum og borgurunum til heilla.