152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:36]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið. Af því svari tel ég skýrt að hann ætlar sér að bæta starfsumhverfi lögreglu og þeirrar starfsemi sem um hana er. Ljóst er að hlutverki nefndarinnar verður ekki sinnt til hlítar af einum starfsmanni, sem sinnir þó mjög viðamiklum og umfangsmiklum verkefnum dagsdaglega og sér í rauninni um alla starfsemi nefndarinnar fyrir utan það að taka eiginlegar ákvarðanir. Málafjöldi síðasta árs var t.d. 103 og það sem af er ári eru 22 mál komin inn á borð nefndarinnar. Nefndin hefur þó unnið þrekvirki og hefur náð að bæta og koma á föstu verklagi innan lögreglu, skilgreint ákveðna verkferla og lagt til breytingar á þeim í góðu samstarfi við ríkislögreglustjóra og lögregluembættin víðs vegar um landið. Ótrúlega margt hefur áunnist og áheyrn og virðing lögreglustéttarinnar fyrir tilmælum nefndarinnar hefur aukist. En tilmælin eru ekki bindandi. Þau eru í rauninni tilmæli til lögreglustjóra um að fara í ákveðnar aðgerðir, en þau eru ekki bindandi. Eins og hæstv. ráðherra bendir á þarf aukið eftirlit að fylgja auknum rannsóknarheimildum og við megum ekki setja eftirlit með veigamiklum störfum í annan flokk, eins og störf lögreglumanna eru. Löggæslan og almenningur eiga skilið fumlaus vinnubrögð lögreglu og, þegar þörf er á, geta leitað til eftirlitsnefndar með erindi sín vegna samskipta við lögreglu. Það skiptir öllu máli að allt þetta, að löggæslan og eftirlitið séu fumlaus í sínum vinnubrögðum.

Mig langar einnig að spyrja: Hver er framtíðarsýn ráðherra varðandi eftirlit með störfum lögreglu, bæði hvað varðar starfsemina sjálfa en einnig með tilliti til fjármagns?