152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:41]
Horfa

Georg Eiður Arnarson (Flf):

Virðulegur forseti. Fréttamiðlar hafa greint frá því að hæstv. dómsmálaráðherra muni leggja fram frumvarp um að einn sýslumaður verði yfir öllu landinu í stað þeirra níu sem nú gegna sýslumannsembætti. Einnig hefur komið fram að Sýslumannafélag Íslands telur vafasamt að slík sameining verði til bóta og að varasamt geti verið að fara svo hratt í jafn stórfelldar breytingar og í frumvarpinu felist. Það vaknar hjá manni ótti, þegar svona áform eru kynnt, um að nærþjónustan muni skerðast, nánar tiltekið að starfsstöðvar sýslumannsembættanna úti á landi verði lagðar niður. Ég bendi á í þessu samhengi bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, dagsetta 24. mars sl., en þar segir, með leyfi forseta:

„Hver dómsmálaráðherra á fætur öðrum hefur áformað að leggja niður stöðu sýslumanns sem veikir verulega embættið hér í Eyjum, embætti sem hefur verið að eflast fyrir tilstilli sýslumannsins í Eyjum að undanförnu. […] Engin ný verkefni eru skilgreind í yfirferðinni hjá ráðherra en það er nauðsynlegt að þau séu skilgreind sé það ætlun ráðherra að styrkja embættin. Bæjarstjórn Vestmannaeyja mótmælir þessum áformum harðlega þar sem ekki er hægt að sjá hvernig þetta á að styrkja embættin og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að reka ráðherrann til baka með áform sín líkt og forvera sína og vinna í því að starfsemi embættisins í Eyjum verði efld enn frekar.“

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Stendur til að leggja niður starfsstöðvar sýslumanna á landsbyggðinni eða skerða starfsemi embættisins með öðrum hætti? Ef svo er, af hverju stendur til að skerða á þann hátt nærþjónustu íbúa á landsbyggðinni og hver er tilgangurinn?