152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:46]
Horfa

Georg Eiður Arnarson (Flf):

Í fjármálaáætlun þessari segir um þessi áform, með leyfi forseta:

„Með niðurfellingu lögsagnarumdæma, ríkara samstarfi á milli starfsstöðva og aukinni áherslu á stafræna þjónustu verður hægt að byggja upp mismunandi sérhæfingu á hverjum stað sem þjónar öllu landinu og getur auk þess tekið við auknum verkefnum hins opinbera. Hver starfsstöð verður því áfram öflugur vinnustaður í héraði, þjónusta við borgarana verður betri, reksturinn hagkvæmari og stjórnsýslan skilvirkari.“

Þarna virðist gefið til kynna að ekki eigi að leggja niður starfsstöðvar þó af samningum verði. Það er þó gömul tugga, líkt og með Gugguna á Ísafirði, að segja að ekkert muni breytast. Mikið hefur verið rætt um störf án staðsetningar undanfarið. Það hefur oft verið rætt um það hvort ekki megi inna af hendi ýmsa stjórnsýslu á landsbyggðinni til að stuðla að jákvæðri byggðaþróun. Ég minni á að töluvert hlutfall allra starfa eru ríkisstörf en bróðurpartur ríkisstarfsmanna vinnur hérna á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekkert sem segir að þessi störf þurfi að vera staðbundin og reynsla okkar af Covid hefur svo sannarlega sýnt það að störfin þurfa ekki öll að vera bundin við skrifstofu í 101 Reykjavík.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er það stefna þessarar ríkisstjórnar að fjölga störfum á landsbyggðinni? Ef svo er, þá vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvað hans ráðuneyti mun leggja á vogarskálarnar í þeim efnum. Mun hæstv. ráðherra t.d. opna á það að störf í ráðuneyti hans verði án staðsetningar?