152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:04]
Horfa

Daníel E. Arnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Já, ég fagna því sérstaklega líka að ráðherra leiti eftir frekara fjármagni í málaflokkinn og einnig vil ég þakka bara samfélagsumræðunni einmitt í því að efla traust og að fólk sé mögulega líka í stakk búið að koma fram og kæra til lögreglunnar. Og það er örugglega líka metoo-bylgjan sem ég myndi áætla að hafi áhrif þarna. En ég ætla að fara aðeins í önnur málefni tengd hæstv. ráðherra. Ég fagna því sérstaklega að í fjármálaáætlun segir að bæta eigi þjónustu við umsækjendur sem sækja um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar og eitt af markmiðum áætlunarinnar er ánægja viðskiptavina og að regluverk sé mannúðlegt og skýrt, eins og segir í fjármálaáætlun. Eins og staðan er í dag þá hefur ekki verið samið um talsmannaþjónustu enn þá. Samningur dómsmálaráðuneytisins við Rauða krossinn var ekki endurnýjaður á sínum tíma. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvernig hann sér breytinguna fyrir sér og hvort sú breyting krefjist mögulega aukins fjármagns og hvenær hann sjái fyrir sér að útboðið muni koma til framkvæmdar.