152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Aðeins að kynferðisafbrotamálunum og þessari þjóðfélagslegu umræðu sem hv. þingmaður nefndi. Ég held einmitt að hún sé gríðarlega mikilvægt skref. Við aukum vitund fólks og þátttöku í því einmitt að vera á vaktinni með okkur. Ég verð bara að segja að það átak sem við hleyptum af stokkunum skilar sér einmitt mjög í þessu. Maður verður var við það.

Varðandi talsmannaþjónustu fyrir þá sem hingað leita sem flóttamenn, útlendingar, þá var í upphafi rætt um að þetta yrði mögulega boðið út. Sá samningur sem var við Rauða krossinn hafði verið framlengdur um eitt ár og gerð grein fyrir því að hann yrði ekki framlengdur síðan meira. Það urðu breytingar á þessari þjónustu sem ráðuneytið bar ábyrgð á samkvæmt lögum sem sneri þá að talsmannaþjónustu og félagslegri þjónustu. Félagslega þjónustan fór um áramótin yfir til félagsmálaráðuneytisins og á þeim tímamótum þótti eðlilegt að endurskoða það samstarf sem hafði verið við Rauða krossinn og skoða aðrar leiðir. Upphaflega var talað um að þetta yrði boðið út en eftir samráð við Ríkiskaup var ákveðið að gera það ekki heldur fara þá leið sem þegar hefur verið farin, að auglýsa eftir lögmönnum, lögfræðingum til að sinna þessari þjónustu, gera þar ákveðnar kröfur og voru sett fram í þeirri auglýsingu reyndar mælanleg skilyrði fyrir árangri. Þessi auglýsing birtist fyrir nokkru síðan og ég veit ekki annað en að Útlendingastofnun sé með þetta í mjög öruggum farvegi og þjónustan verði tilbúin og það verði ekkert rof á henni. Það má ekki gerast. Við höfum lögboðnar skyldur til að sinna þessari þjónustu og það stendur ekkert til að draga úr henni heldur miklu frekar að standa við það fullkomlega eins og gert hefur verið.