152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:08]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég ætlaði aðeins að koma inn á mál sem hefur verið tæpt á fyrr í umræðunni en spyrja kannski út frá málunum með öðrum hætti en hefur verið gert. Snemma á árinu bárust fréttir af því að hæstv. dómsmálaráðherra hefði slitið samningum við Rauða krossinn um hagsmunagæslu hælisleitenda. Rauði krossinn hefur sinnt þessum málaflokki í samstarfi við stjórnvöld síðan 2014 og þar er náttúrlega búið að byggja upp mikla sérfræðiþekkingu. Þetta er flókinn og viðkvæmur málaflokkur, eins og við þekkjum, og ég held að það efist enginn um að Rauði krossinn hafi sinnt starfinu mjög vel. Svör ráðuneytisins hafa verið á þá leið að forsendubrestur hafi orðið þegar málaflokknum var skipt upp á milli ráðuneyta við myndun ríkisstjórnarinnar eftir kosningar. Fyrir mér er ekki um að ræða forsendubrest sem óhjákvæmilega leiðir til riftunar. Málaflokkur útlendingamála heyrir enn undir dómsmálaráðherra. Enn fremur er ekkert því til fyrirstöðu að nýr samningur sé gerður við tvö ráðuneyti. Mér finnst mun líklegra að ráðherra hafi ekki hugnast umsagnir sérfræðinga Rauða krossins, sem eru meðal okkar færustu sérfræðinga á sviði hagsmunagæslu fólks á flótta, við frumvarp sem hann berst við að koma í þriðja sinn í gegnum þingið, frumvarp sem hefur verið gagnrýnt fyrir að gera ómanneskjulegt og þungbært kerfi enn verra. Mestar áhyggjur hef ég þó af því að utanumhaldið sem stofnunin hefur sinnt vel muni glatast og fólk sem hingað kemur muni eiga erfiðara með að gæta réttar síns gagnvart kerfinu. Hins vegar hef ég áhyggjur af því að breytt fyrirkomulag verði enn kostnaðarsamara fyrir ríkið, að það verði dýrara að sinna málaflokknum þegar málum verður dreift milli margra ólíkra aðila. Það eru margir vankantar á þessu fyrirkomulagi að mínu mati. Ég ætla því að leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra aðeins um kostnaðarmat innan ráðuneytisins, hvert var það t.d. áður en ákvörðunin var tekin? Á hverju byggir hún og hver vonast hann til að ávinningurinn verði þegar sérfræðingþekking glatast og málum verður dreift víðar?