152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður tók þannig til orða í gær út af öðru máli að menn væru að gasa í umræðunni ef ég fer rétt með. Ég veit ekki hvað á að kalla það þegar hv. þingmaður leggur mér orð í munn, að hann telji ráðherra hafa ekki hugnast málsmeðferð eða niðurstöður Rauða krossins. Það hefur bara hvergi komið fram af minni hálfu og það er bara ekki til stafkrókur um það. Það er ekkert í mínum yfirlýsingum eða í mínum hugsunum um að það hafi verið á þeim nótum. Ég minnist þess ekki að hafa talað um einhvers konar forsendubrest fyrir samningunum. Þær breytingar urðu aftur á móti á umhverfinu að það var eðlilegt. Það er ekkert óeðlilegt við að fara nýjar leiðir í að veita þessa þjónustu. Það þarf ekki að mínu mati að hafa það í för með sér að sérfræðiþekking glatist. Fólki sem hefur starfað hjá Rauða krossinum er einmitt eins og öðrum opið að sækja um hjá Útlendingastofnun. Það hlýtur að vera framar mörgum öðrum þegar kemur að þeirri reynslu og þekkingu sem það hefur til að vera falin þessi störf og til takast á við þau verkefni og uppfylla þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingunni. Við ákváðum að fara aðrar leiðir í að veita þessa lögbundnu þjónustu. Það gerum við ekki á þeim grunni að við teljum að kostnaður muni aukast eða að þjónustan muni versna. Við teljum að það megi ná öllum þeim sömu markmiðum og starfað hefur verið eftir í þessum efnum. Umhverfið breytist vonandi með nýrri löggjöf (Forseti hringir.) og ég er mjög bjartsýnn á að það muni takast mjög vel til (Forseti hringir.) á þessum forsendum.