152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:13]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Rétt er það að ég notaði hugtakið gaslýsing í ræðu hér í þinginu í gær af öðru tilefni, réttmætu tilefni. Ég ætla ekki að kannast við að það hugtak geti átt við um það sem ég sagði hér áðan vegna þess að þar var ég bara að fara fram með mínar eigin hugleiðingar um það sem mér finnst allt eins líklegt að sé rót þessara aðgerða miðað við þá hörku sem hefur stundum verið í útlendingapólitík þess flokks sem hæstv. ráðherra tilheyrir. Ég skal alveg gangast við því að ég var ekki að fullyrða út frá einhverjum orðum heldur voru þetta mínar hugleiðingar og mitt mat á því sem líklegt gæti verið út frá þeirri stefnu sem rekin hefur verið af hæstv. dómsmálaráðherra í þessum málaflokki. Við það ætla ég að standa.

En svo að við tölum aðeins meira um Rauða krossinn, hvort ætli fólki sem er í viðkvæmri stöðu og þarf á leiðsögn og aðstoð að halda finnist meira traustvekjandi að leita til, Rauða krossins eða einhverra aðila úti í bæ? Hvort finnst okkur líklegra að fólki myndi líða betur með? Ætli sú velvild sem Rauði krossinn nýtur á alþjóðavettvangi sé ekki líklegra svar heldur en hitt?

Síðan langar mig að árétta spurninguna, vegna þess að það kom í raun og veru ekki svar við henni. Ég er að reyna að fiska eftir varðandi kostnaðarmatið, hvernig það fór fram. Svarið var: Það er mat okkar í ráðuneytinu að þetta muni ekki auka kostnað og þar fram eftir götunum. En ég er að reyna að fá fram hvers konar vinna fór fram í ráðuneytinu til að meta þetta. Á hverju byggir þá mat ráðuneytisins á því að ávinningurinn verði sá sem að er stefnt? Ég held að þegar þetta er komið á fleiri aðila, frekar en að vera hjá Rauða krossinum, þá sé einmitt hætta á því að kostnaður fari úr böndunum, sérfræðiþekking glatist og utanumhaldið (Forseti hringir.) utan um þennan viðkvæma hóp verði verra.