152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir mjög góða spurningu. Þetta er kannski ein af stærstu áskorunum okkar á næstu árum. McKinsey-skýrslan er mjög góð sviðsmyndagreining, svona núllpunktsgreining ef við gerum ekkert miðað við þau legurými sem við erum að byggja upp í nýjum meðferðarkjarna, 740 rými. Ég fór yfir það í minni ræðu að við vinnum samkvæmt framkvæmdaáætlun í aukningu hjúkrunarrýma. Það er rétt að síðan þurfum við að huga að heimahjúkrun og göngudeildarþjónustu og stuðningi við fólk heima þannig að það geti búið lengur heima. Þetta er ein af þeim megináskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Svo vil ég draga það fram af því að hv. þingmaður kom inn á þingsályktunartillögu til stefnumótunar sem ég mælti fyrir í þinginu fyrr, að henni mun fylgja aðgerðaáætlun. Þá vil ég minna á að við endurskoðum áætlun á hverju ári. Ef fjárhæðir liggja ekki fyrir þegar við gerum áætlun á grundvelli þessarar stefnu þá kemur til endurskoðunar áætlunar að ári. Það finnst mér mjög mikilvægt í þessari umræðu. Þetta er ekki endapunktur. Þetta er áætlun inn á árin og við getum ekki sett bara einhverjar fjárhæðir hérna inn.

Mér finnst mjög mikilvæg spurning sem hv. þingmaður varpar hér fram. Í þessari sviðsmynd um áætlaða þörf fyrir fjölda rýma þá erum við komin í vanda ef ekkert verður að gert og við höldum ekki áætlun um hjúkrunarrýmin og bætum okkur í þessari þjónustu og stuðningi við fólk heima fyrir eins og varpað er fram í þessari stefnu. Við þurfum að mæta þessari áskorun eins og dregið er mjög vel fram í McKinsey-skýrslunni.