152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað rétt að fjármálaáætlun er endurskoðuð á hverju ári en það er hins vegar líka staðreynd að áætlunin fyrir árið 2023 er grunnurinn að fjárlagafrumvarpinu og fjárlögum fyrir það ár. Þar bara vantar hreinlega fjármuni inn í til að komast til móts við þessi áhersluatriði sem hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi hér áðan. Heimsfaraldurinn sýndi svart á hvítu að heilbrigðiskerfið okkar stendur veikt fyrir þegar svo mikið álag verður á kerfið og ekkert má út af bregða þegar staðan í eðlilegu árferði er sú að nýting á legurýmum á Landspítalanum er 97–100%. Það er því nokkuð ljóst að við þurfum þjóðarsátt um heilbrigðismálin og ég hélt að hæstv. heilbrigðisráðherra væri sammála því. En svo virðist ekki vera því að fjármálaáætlunin sem við ræðum hér gerir ekki ráð fyrir að nauðsynlegar aðgerðir séu fjármagnaðar. Á allra vörum er mönnunarvandi í heilbrigðiskerfinu en áform virðast ekki vera um að bregðast við þeim vanda með afgerandi hætti. Ef ekkert er að gert til að minnka álag á heilbrigðisstéttir og bæta kjör og starfsaðstæður mun fólk hverfa frá störfum í heilbrigðisgeiranum og hefur verið að gera það undanfarin ár. Starfsaðstæður þurfa að vera meira aðlaðandi ef leysa á vandann og til þess þarf að gera áætlanir um fjármögnun. Ég hef verið sammála hæstv. heilbrigðisráðherra þegar hann talar um auknar forvarnir og áherslu á lýðheilsu. Það er hins vegar svo að fjárframlög til lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála dragast saman á næstu árum á raunvirði. Fjárframlög til lýðheilsu og forvarna dragast saman um tæpa 2 milljarða á næstu fimm árum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessu og því að fjárframlög verði ekki næg til að hæstv. ráðherra nái að hrinda í framkvæmd áherslum sínum um betra heilbrigðiskerfi, forvarnir og lýðheilsu.