152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að varpa fram hér stóru spurningunum og stóru áskorununum og gefa mér færi á að svara. Ef horft er inn í þessa fjármálaáætlun þá horfumst við í augu við að við höfum, eins og ég sagði í ræðu minni, varið lífskjörin og við höfum varið opinberra þjónustu. En við höfum líka tekið að láni og við munum reka ríkissjóð með halla næstu ár. Það þýðir að við þurfum að hægja á vexti frumgjaldanna og það er um 1%. Hér erum við þó að leggja meira til heilbrigðismálanna og halda í við þá aukningu sem birtist í breyttri aldurssamsetningu og fjölgun. Mestur hlutinn af því er í formi launa inn í heilbrigðiskerfið. En það er risastór áskorun, það er hárrétt hjá hv. þingmanni, mönnunin. Við horfumst í augu við það í greinargerð í þessari fjármálaáætlun og það eru mjög fjölbreyttar áskoranir sem snúa að því þar. Það er menntakerfið, háskólanámið, og það er komið inn á það í greinargerð. Það er samsetningin á vinnuaflinu og það er ekki síst það að ná að semja við alla aðila í kerfinu. Við náðum að semja við hjúkrunarheimilin, fimm ára samning, hér í síðustu viku, sem er fagnaðarefni. Við þurfum að semja við alla aðila í kerfinu þannig að við getum aukið samspilið í kerfinu, aukið samnýtinguna og nýtt mannaflann betur. Fram hjá því verður ekki horft.

Síðan vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á forvarnir vegna þess að ég er að setja af stað hóp sem tekur utan um lýðheilsustefnuna og verður hér farið í að leggja drög að aðgerðaáætlun í forvörnum og McKinsey-skýrslan verður m.a. tæki í þeirri vinnu.