152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:32]
Horfa

Georg Eiður Arnarson (Flf):

Forseti. Í jómfrúrræðu minni fyrr í vikunni fjallaði ég um heilbrigðismál í Vestmannaeyjum. Í kjölfarið hafði samband við mig læknir á heilsugæslunni í Eyjum, Davíð Egilsson. Ég vil gjarnan koma á framfæri við ráðherra ábendingum Davíðs, enda tel ég mikilvægt að ráðherra taki mið af þeim. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Staðreyndin er sú að í Eyjum eru einungis tveir fastráðnir læknar en í raun þyrfti að hafa a.m.k. fimm fastráðna lækna. Á síðustu 10–15 árum hefur sjúkrarýmum fækkað. Skurðstofunni er lokað, aldur samfélagsins hækkar og fleiri veikir einstaklingar búa heima hjá sér lengur. Þunginn af þessum breytingunum fellur fyrst og fremst á heilsugæsluna. Á sama tíma hefur verið erfiðara og erfiðara að manna stöður lækna, hvort sem um er að ræða fastar stöður eða að fá lækni í verktökuafleysingar. Helming ársins í Eyjum er einungis einn verktaki. Þetta þýðir mikið álag, þetta er bæði mikil binding á vöktum, auk þess sem mikið er að gera á þessum vöktum í ljósi stærðar samfélagsins og einangrunar. Þessi staða á eftir að versna enn frekar enda margir læknar á landsbyggðinni að nálgast eftirlaunaaldur. Á næstu árum mun fjöldi heimilislækna útskrifast á Íslandi en það er ekkert sem segir að þeir muni leita út á land í vinnu, enda ekkert sem dregur þá hingað, hvorki launakjör né starfsaðstæður. Það hafa verið lagðir peningar í ákveðna þætti heilsugæslunnar; geðheilsuteymi og ýmislegt sem styður við, en í raun hefur ekkert verið gert til að bæta grunnþjónustuna, sjálfa heilsugæsluna. Afleiðingin er verri þjónusta við íbúa landsbyggðarinnar. Eiginleg heilsugæsla og forvarnir víkja fyrir bráðaþjónustu sem þarf að hafa forgang. Ég óska eftir því að aukinn þungi sé lagður í grunnþjónustuna. Það verður að tryggja mönnun stöðugilda lækna og annarra starfsstétta og tryggja íbúum landsbyggðarinnar þá grunnþjónustu sem ríkið skal veita samkvæmt lögum.“

— Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við þessu ástandi?