152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Georg Eiði Arnarsyni fyrir. Hv. þingmaður dregur hér í raun og veru fram þá áskorun sem við horfumst í augu við varðandi mönnun á landsbyggðinni, ekki síst. Það er risavaxin áskorun, hvernig við mætum því. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, það er jafnvel þannig að þeir læknar sem hafa verið fastráðnir á landsbyggðinni eru sumir hverjir á hraðri leið á eftirlaun. Þetta er bara mikil áskorun. Forveri minn í starfi setti hér á fót landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu. Það er langtímaverkefni en um leið skammtímaverkefni sem maður hefur áhyggjur af. Ég sé að við getum að marki, svona til skemmri tíma, aukið svolítið samvinnuna og samspilið í kerfinu, bæði við heilbrigðisstofnanirnar og útstöðvarnar. Þarna ættu að vera miðað við mannfjöldann alla vega fjórir læknar, það er rétt, jafnvel fimm ef vel ætti að vera. Og þjónustan. Ég get tekið undir það, en þarna eru þá tveir fastráðnir og svo verða einhverjir að hlaupa í skarðið. Svo er það það sem hv. þingmaður dró hér vel fram, þ.e. sérgreinaþjónustan. Það er þó mjög margt mjög vel gert í Vestmannaeyjum, við skulum ekki gleyma því.