152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:41]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langaði til að ræða við heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál og endurhæfingarþjónustu. Ég get ekki séð að verið sé að efla þennan málaflokk neitt af viti í fjármálaáætlun, í þessu stefnuplaggi ríkisstjórnarinnar, fyrsta stefnuplaggi nýrrar ríkisstjórnar. Ég á erfitt með að trúa því út af því að það er á skjön við orðræðu bæði fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi heilbrigðisráðherra. Þannig að mig langar til að spyrja ráðherra hvað sé að frétta í þeim málum. Hann fór aðeins yfir þetta í sinni inngangsræðu. En hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að bregðast við þessari auknu þörf á geðheilbrigðisþjónustu og aukinni þörf á endurhæfingarþjónustu, sérstaklega núna í kjölfar Covid? Það eru teikn á lofti um að geðheilbrigðisvandi sé að aukast í kjölfar Covid, að vímuefnavandi sé að aukast og þörf á því að kerfið grípi þessa einstaklinga fyrr frekar en seinna, því að við vitum að það kostar okkur gífurlegt fé inn í framtíðina ef við bíðum of lengi. Það er þegar mikill biðlistavandi í kerfinu sem þýðir að við tökum allt of seint á vandanum og nú bendir allt til þess að þetta sé að fara að aukast. Þessi langa bið er sérstaklega viðkvæm þegar um börn er að ræða og við vitum að það skiptir sköpum að grípa börn snemma til að koma í veg fyrir langvarandi og oft óafturkræfan skaða. Það hefur verið mikil umræða undanfarið um nauðsyn þess að efla t.d. BUGL, en ég finn hvergi í þessu stefnuplaggi að það standi til. Hér er verið að auka fjármagn til Landspítalans sem dekkar ekki einu sinni fjárþörf vegna lýðfræðilegra breytinga. Landspítalinn hefur talað um að það séu um 2% sem þurfi ofan á, en ráðuneytið reiknar 1,5%, auk 800 milljóna aukalega fyrir útgjaldasvigrúm. (Forseti hringir.) Þannig að mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti útskýrt fyrir mér hvar þetta er að finna. Hvernig ætlar ráðherra að grípa þessa viðkvæmu hópa á meðan ekki er verið að fjármagna spítalann nægilega mikið?