152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:46]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er allt of lítill tími til að spjalla hérna en ég er alltaf með ráðherra í liði þegar kemur að einhverjum jákvæðum og góðum breytingum. Mig langaði aðeins til þess að fara lengra með þetta af því að við vorum að fá kynningu á skýrslu McKinseys um framtíðarþróun Landspítalans í velferðarnefnd í morgun og þar kemur fram að það mun þurfa mun meira fjármagn í spítalann til að fara í mikilvægar mótvægisaðgerðir til að geta undirbúið heilbrigðiskerfið fyrir framtíðaráskoranir. Við erum enn þá stödd á þeim stað að við erum alltaf í einhverri viðbragðsstöðu, að slökkva elda í staðinn fyrir að geta byggt upp og undirbúið og verið í dálítið framsýnni vinnu í uppbyggingu af því að við setjum ekki nægilega mikið fjármagn til spítalans. Fjármagnið dekkar fjárþörf vegna lýðfræðilegra breytinga. Það er ekki nóg til að fara í þessa mikilvægu uppbyggingu þannig að við getum hætt að vera alltaf að slökkva elda. Þetta er ein spurning. Hvenær komumst við á þann stað að við getum farið að gera eitthvað meira og stunda meiri uppbyggingu og hugsa meira fram í tímann innan heilbrigðiskerfisins? Hvenær fjárfestum við almennilega í þessu kerfi?

Hitt sem mig langaði til að spyrja út í er áfram um geðheilbrigðisþjónustu því að ég hef smá áhyggjur af því að staða fagstjóra sálfræðinga á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur verið lögð niður. Ég er búin að heyra margar gagnrýnisraddir sem hafa áhyggjur af því að með því hætti þessi faglega samhæfing vinnubragða sálfræðinga á milli starfsstöðva sem hefur lagt grunninn að þessum árangri sem hefur náðst í sálfræðiþjónustu innan heilbrigðisstofnananna. Þetta verði til þess að sú samhæfing hverfi. Nú er enginn sálfræðingur sem kemur með beinum hætti að skipulagi sálfræðiþjónustu á stofnuninni. Hættan er sú að þjónustan sem verður veitt verði ómarkviss og veittar ógagnreyndar meðferðir við geðrænum vanda sem kannski þarfnast mun meiri inngrips. Þannig að spurning mín til ráðherra er: (Forseti hringir.) Er þetta eitthvað sem ráðherra hefur til skoðunar? Er þetta eitthvað sem þarf að laga? Ég hef áhyggjur af því að fjármagninu sem við erum að setja í geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni (Forseti hringir.) verði ekki vel varið á meðan við tryggjum ekki að það sé samræmd og gagnreynd meðferð á öllum heilsugæslustöðvum.