152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir sitt innlegg hér og svo spurningu sem snýr að þjónustu við vímuefnasjúklinga. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir yfirlýsingu um stolt af íslenskri heilbrigðisþjónustu. Ég held að við getum öll verið mjög stolt af íslenskri heilbrigðisþjónustu og ekki síst íslensku heilbrigðisstarfsfólki sem hefur auðvitað borið hitann og þungann af því að fara með okkur í gegnum erfiða tíma. Af því að ég sagði það í ræðu minni áðan þá hef ég alltaf heyrt þann tón hér í þingsal að það standa allir með íslenskri heilbrigðisþjónustu. Varðandi umræðu um hagsmunasamtök þekkjum við að við höfum gert stóran samning við SÁÁ því að þar hefur safnast upp mikil þekking og þar er sjúkrahús þar sem að fólk fær þjónustu. Við verðum að horfa á kerfið eins og það er núna sem hluta af heilbrigðisþjónustunni vegna þess að við gætum ekki sinnt henni með kerfið eins og það er uppbyggt núna, ekki í einu vetfangi. Ég er ekkert í vafa um að þar er mikil þekking og við höfum auðvitað það fyrirkomulag að hafa Sjúkratryggingar, sem eru samningsaðilinn og semur um og kaupir þjónustuna og fer yfir alla verkferla, allar skráningar og að allt sé lögum samkvæmt og hefur síðan eftirlit með þjónustunni og á það verðum við að treysta.