152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni. Hv. þingmaður endaði sína góðu ræðu — og það var allt satt og rétt sem hv. þingmaður kom inn á, þetta er það sem við verðum að horfast í augu við og kljást við — á því að spyrja: Er ekki bara rétt að spýta í? Ég horfi inn í þá framkvæmdaáætlun sem liggur fyrir um uppbyggingu hjúkrunarrýma og það eru 364 ný hjúkrunarrými og 137 sem verða endurbætt í þessari framkvæmdaáætlun sem er fjármögnuð á tímabili þessarar áætlunar. Það kann vel að vera, ég er bara ekki alveg fyllilega með myndina af því hvað við þurfum raunverulega mörg hjúkrunarrými. Það er rétt sem hv. þingmaður segir um vandann á Landspítalanum. McKinsey-skýrslan segir að við séum með 100% nýtingu á legurýmum sem sprengir öll met og við höfum verið eftir á í uppbyggingunni og það hafa verið tafir, því miður. Við höfum meira að segja sett í það fjármuni. Við samþykktum hér í þinginu fyrir einu og hálfu ári síðan 1.350 milljónir til að takast á við þann vanda en við höfum ekki náð að nýta þessa peninga. Síðan hafa orðið tafir á uppbyggingu hjúkrunarheimila hér og hvar og hv. þingmaður þekkir það alveg af sínu svæði. Hér er Árborg sem átti að opna í marsmánuði, það eru komnar tafir í það o.s.frv. Hvað sem öðru líður, ef við horfum inn í framtíðina, af því að þessi skýrsla er til 2040, þá verðum við að styðja við fólk með fjölbreyttum búsetuúrræðum, með endurhæfingu, með forvörnum. Þessu úrræði verðum við líka að beita samhliða en við þurfum kannski að draga betur fram myndina af því hversu mörg rými eru nær í tíma.