152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:06]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Að ræða um svona stóra málaflokka á tveimur mínútum tekur engu tali og maður nær ekki utan um það sem maður myndi vilja sagt hafa í slíkum tímaskorti. Mig langaði að ræða önnur mál en ég ætla samt að fylgja því eftir hvað er búið að vera að gera síðastliðin fjögur ár. Við sjáum skrifað alltaf inn í einhverjar skýrslur: Já, það eiga að vera þetta mörg rými og það eiga að vera þetta mörg rými. En svo bara gerist ekkert. Hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi mitt heimasvæði í Reykjanesbæ þar sem ekkert hefur gerst í þrjú ár. Það var skrifað undir samning 2019 og það hefur ekkert gerst í þrjú ár annað en að það hafa átt sér stað þrætur milli Framkvæmdasýslunnar og Reykjanesbæjar um það hvernig eigi að byggja þetta. Það var skrifað undir samning um að það ætti að byggja þetta á tilteknum stað við hliðina á þessu. Síðan var farið að rífast um einhverjar tengibyggingar sem áttu að kosta fullt af peningum og enginn vildi borga. Við sjáum það líka á Höfn. Þar er boðið út og svo bara metur Framkvæmdasýslan tilboðið of hátt og þá gerum við ekki neitt. Þannig að þetta er uppsafnaður vandi, það eru biðlistar úti um allt. Þó að ég sjái að það séu einhver 360 rými deilt með fimm, ef ég horfi bara á síðasta kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar, þá er bara fjarska lítið sem hefur áunnist á þessum vettvangi. Eins og ráðherra segir þá þarf að spýta í lófana. Það voru verkefni í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu sem komust ekki inn í fjármálaáætlun, m.a. Ártún en þar áttu að vera 200 rými og síðan vorum við með Sunnuhlíð í Kópavogi og þar áttu að vera 50 rými. Þetta komst ekki inn í fjármálaáætlun. Það var talið nauðsynlegt að koma þessu inn í fjármálaáætlun en því var bara hafnað. Er það fjármálaráðuneytið sem stjórnar þessu öllu?