152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:20]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég verð að fá að bregðast við orðum hæstv. fjármálaráðherra um að það sé einhver listi Viðreisnar, að við séum búin að krota upp einhvern lista um það hverjir eigi að fá að kaupa eða ekki. Við erum ekki með neinn lista, það er enginn að tala um eitthvað slíkt. Við erum hins vegar að vísa í orð sem margítrekað hafa verið nefnd í söluferlinu; það er traust, traust almennings, það er talað um hugtakið orðspor, það er verið að veita afslátt eða frávik og allt þetta setur okkur þær skorður og setur okkur í þá stöðu að við verðum auðvitað að leggja mat á þá sem kaupa þegar listinn er loksins birtur eftir mikla eftirgangssemi, að sjálfsögðu. Það er bara það sem við erum að tala um. Það er auðvitað þannig, eins og komið hefur fram og við verðum að fá að hnykkja á því, að það var talað um að verið væri að selja til aðila stóra hluti í bankanum. Það að þó nokkuð margir einstaklingar eru að kaupa fyrir milljón, tvær, þrjár, fjórar, fimm, rímar ekki við þá mynd sem dregin var upp í aðdraganda sölunnar. Þar með hverfur auðvitað öll umræða um það (Forseti hringir.) að eðlilega hafi verið staðið að þessu og að það sé bara eitthvað óeðlilegt að spyrja spurninga og þá hljóti menn (Forseti hringir.) að vera með einhverja lista og nöfn yfir þá sem ekki mega kaupa. Við erum bara einfaldlega að máta þennan lista við þær forsendur sem gefnar voru í upphafi sölunnar, aðdraganda hennar og núna eftirmálann.