152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Samhengið hérna skiptir máli og eins og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson sagði var það dreift eignarhald sem var ástæðan í fyrra útboðinu, að finna rétt verð. Þar var selt mun meira, 10% meira í bankanum en upprunalega var gert ráð fyrir, á mun lægra verði en það reyndist síðan vera þegar allt kemur til alls. 60% afsláttur, 30 milljarðar sem voru gefnir af almannaeign. Það er ekki kaupendunum að kenna, það er fjármálaráðherra að kenna. Fjármálaráðherra hafði tök á því allan tímann að segja — miðað við þessa aðsókn, miðað við viðvaranir sem þingið fékk fyrir söluna gat ráðherra sagt: Nei, þetta er greinilega rangt verð. Við þurfum að uppfæra það. Þar töpuðust 30 milljarðar. Í þetta skipti átti að finna stóra fjárfesta. Svona lokað tilboðsferli er hannað til að finna stóra fjárfesta, að laða þá að áhættunni af að kaupa svona banka með einmitt afslætti. Það var ekki gert (Forseti hringir.) miðað við allar forsendur. Umsagnaraðilar vöruðu einmitt við þessu, sögðu að betra væri að fara aftur í sama ferlið og var gert fyrst (Forseti hringir.) því að núna væri verðið alla vega réttara. Það er staðan sem við erum í í dag. (Forseti hringir.) Það var hunsað, alla vega þær umsagnir sérfræðinga sem við fengum, (Forseti hringir.) og bara farið í ferlið eins og ráðherra ákvað.