152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Nú er ég ekki í efnahags- og viðskiptanefnd sem þetta fer til og ég er aðeins að reyna að fóta mig í þessu, ég rakst á einmitt þennan hluta í lögunum sem mér fannst áhugaverður. Ég held hins vegar að innleiðingarhallinn sé af tvennum toga. Annars vegar eru þetta stundum flókin tæknileg mál. Við höfum einfaldlega ekki gríðarlega mikið bolmagn til þess eða tæknilega þenkjandi fólk til að sinna slíkri innleiðingu. Þetta er flókið, það er bara mjög augljóst. Stærð okkar gerir það að verkum að það eru ekkert rosalega margir í þessum geira í ráðuneytunum sem geta glímt við svona flókin tæknileg mál, eru bara uppteknir í ýmsu öðru. Við erum með alveg fullt af fólki í svoleiðis, en það er bara upptekið í fullt af öðrum verkefnum. Hin aðalástæðan er einfaldlega að íslensk stjórnsýsla er tiltölulega undirmönnuð almennt séð. Það lýsir sér í því einmitt að við erum ekki með nægilega góða vöktun í rauninni á ferlinu innan Evrópusambandsins, á þeim tilskipunum og reglugerðum sem eru í undirbúningi og á leiðinni hingað þannig að við grípum oft miklu seinna inn í í ferlinu heldur en við ættum að gera og erum síður undirbúin fyrir það. Ástæðan fyrir því er einmitt undirmönnun. Það er alltaf verið að kvarta undan því að það sé verið að stækka báknið og það verði nú að vera rosalega lítið o.s.frv., en afleiðingarnar eru þessar. Við erum með lítið bákn, það er bara þannig. (Forseti hringir.) Við erum lítið land þannig að miðað við stærðarhlutföllin virðumst við vera með stórt bákn (Forseti hringir.) en við erum með lítið bákn miðað við þau tæknilega flóknu mál sem við þurfum að leysa úr, óháð stærð landsins.