152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Nei, mér finnst það ekkert augljóst. Það þarf oft að fara í Evrópureglugerðina til að gera þann samanburð því að það eru alveg fordæmi fyrir því að það hafi einfaldlega verið logið að okkur hérna á þinginu um það hvað Evrópureglugerð segir miðað við efni frumvarpsins sem við fáum í hendurnar. Það rifjast upp fyrir mér mál vegna fjarskipta og netöryggissveitarinnar. Þar var ákveðin túlkun á því hvernig netöryggissveitin ætti aðgengi og ætti að stjórna í rauninni eftirliti, sem var rangtúlkun. Ég veit ekki af hverju, hvort það var einhver villa í þýðingu eða hvort það var einbeittur brotavilji þar. Ég hef líka séð varðandi Árósasamninginn, það var svo sem aðeins öðruvísi, þar hef ég séð túlkun um að það megi annaðhvort bara nota kærunefndarleið eða dómstólaleið, sem var augljóslega rangt af því að t.d. framkvæmdaraðilar varðandi mat á umhverfisáhrifum gátu leitað til bæði kærunefndar og dómstóla en Landvernd gat bara leitað til kærunefndarinnar en ekki til dómstóla. Þannig að það er alveg nauðsynlegt að þetta sé skýrt út fyrir okkur og þar bætist líka við flækjan vegna þess sem er sótt um í EES-ferlinu, um frávik frá Evrópureglugerðum sem EES-löndin fá stundum. (Forseti hringir.) Það er líka stundum dálítið óljóst. Það þarf því miður allt of oft að lesa upprunalega textann.