152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:02]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Gagnrýnin kemur úr öllum áttum og þunginn eykst stöðugt. Ég minni aftur á orð hæstv. forsætisráðherra í gær sem talaði um að það væri eðlilegt í þessari stöðu að gagnrýnar spurningar heyrðust. En það þarf líka að svara þeim, það er ekki nóg að spurningarnar heyrist. Trúverðugleiki ferlisins er laskaður og þá verður að rannsaka málið á trúverðugan hátt og til þess eru rannsóknarnefndirnar. Þær eru öflugt úrræði og verkfæri sem Alþingi hefur til þess. Það sterkasta sem ríkisstjórnin gæti gert núna til að mæta áhyggjunum, til að mæta gagnrýninni, til að svara spurningunum er að sýna það með trúverðugum hætti að hún vilji opið ferli, gagnsætt ferli við að gera þetta mál upp og setja á fót rannsóknarnefnd til þess.