152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:03]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Af orðum þeirra örfáu stjórnarþingmanna sem hafa tjáð sig um þetta mál, í ræðustóli eða jafnvel í fjölmiðlum, má ráða að þeim sé stórlega misboðið. Þau orð eru reyndar í engu samræmi við hvernig þau telja að best sé að haga næstu skrefum, þ.e. með Ríkisendurskoðunarúttekt frekar en skýrslu rannsóknarnefndar. Þannig að það er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að það skipti þar máli hver átti þá hugmynd og þetta sé einhvers konar sjálfhelda sem málið er komið í varðandi það. Í ljósi þess að þetta mál er að vinda upp á sig enn frekar legg ég til, svona til umhugsunar, að við setjum núllpunkt hér, bjóðum einhverjum fulltrúa stjórnarflokkanna hingað upp til að eiga þá hugmynd að það verði gerð rannsóknarskýrsla um þetta mál. Við munum samþykkja þá hugmynd, þakka fyrir frábæra framgöngu, þakka fyrir samstöðuna sem við sýnum hér þjóð sem bíður eftir að sjá hvort við ráðum við verkefnið núna vegna þess að við réðum ekki við það síðast (Forseti hringir.) og við erum á vondri leið núna.