152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Kjarninn í þessu máli er þessi: Ráðherra sem er grunaður um að hafa brotið af sér í starfi er ekki sá sem ákveður undir hvaða formerkjum rannsóknin á verklagi hans fer fram, hvar hún fer fram, hvert umfang hennar er, hvenær henni lýkur o.s.frv. Ráðherrann sem liggur undir grun um að hafa misbeitt valdi sínu, eða a.m.k. stórkostlega mistekist að sinna skyldum sínum, ákveður ekki hvernig þingið hagar eftirlitsskyldu sinni gagnvart þessum sama ráðherra. Þetta er prinsippmál sem allir þingmenn með lágmarkssjálfsvirðingu hljóta að sjá. Við getum ekki leyft framkvæmdarvaldinu að ákveða hvernig löggjafarvaldið ætlar að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Í guðanna bænum, þið hljótið að sjá þetta. Ég veit hins vegar (Forseti hringir.) alveg að stjórnarliðar sjá þetta alveg, þeir vita alveg hvað þeir eru að gera. Þeir eru með opin augun. (Forseti hringir.) Þetta eru engir vitleysingar. (Gripið fram í: Þetta er ákvörðun.) Þetta er ákvörðun (Forseti hringir.) um að standa í vegi fyrir því að þingið sinni eftirlitshlutverki sínu og það er því miður engin nýlunda hjá þessari ríkisstjórn.