152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:26]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég ætla að lesa hér aðeins upp úr Kjarnagrein, en þar kemur fram að OECD gaf út leiðarvísi að einkavæðingu fyrirtækja í ríkiseigu árið 2019. Samtökin segja leiðarvísinn byggja á alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum auk áratugareynslu af einkavæðingu innan aðildarríkja OECD og annarra þjóða. Og hvað gerum við? Við hunsum þennan leiðarvísi. Þarna er leiðarvísir þar sem stendur sérstaklega að huga verði að hæfi nýrra kaupenda, að engir ótilgreindir hagsmunaárekstrar liggi fyrir og að rekstraráætlun liggi fyrir hjá nýjum eigendum — skynsamlegar reglur en við hunsum þær. Nú eru stjórnarliðar og ríkisstjórnin að koma í veg fyrir að við setjum saman alvörurannsókn á því hvers vegna þessi leið var farin, hver niðurstaðan var og hvers vegna niðurstaðan er eins og hún er. Ég vil bara benda á, forseti, að það er ekki einn einasti stjórnarliði hér í salnum. Þetta er risastórt mál og þeim er drull — afsakið orðbragðið, forseti. (Forseti hringir.) Það er enginn stjórnarliði í salnum. Við verðum að gera hlé og ræða þetta út af því að stjórnarliðar bera augljóslega enga virðingu fyrir áhyggjum minni hlutans af þessu máli. (Forseti hringir.) Ég krefst þess að við gerum hlé á þessum fundi og við setjumst niður og ræðum saman. (Forseti hringir.) Ég trúi bara ekki að þetta verði niðurstaðan.