152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það var skemmtilegur þessi 13 atriða listi sem hv. þm. Sigmar Guðmundsson las upp hérna áðan. Ég veit ekki hvort það er 14. atriðið, en ég staldra dálítið við þessa klifun á því að það hafi verið markmið að finna hæfa aðila til að fjárfesta, en samt einhvern veginn enda þarna á lista menn sem eru aðallega þekktir að því að hafa keyrt banka í þrot og látið almenning bera skuldirnar af því. Þannig að mér finnst þessi nýja merking á hugtakinu „hæfur aðili“ í merkingunni „ríkt fólk“ vera dálítið spes, en það er kannski þannig sem Sjálfstæðisflokkurinn metur hæfni fólks: Ef það er ríkt þá er það hæft. Punktur.

Fjarvera stjórnarliða eru auðvitað eftirtektarverð eftir að þau brenndu sig á því að styðja hugmynd okkar um rannsóknarnefnd í salnum í gær og voru síðan skömmuð yfir nóttina og koma hingað til baka og slá skjaldborg um ráðherrann, slá skjaldborg um Bjarna Benediktsson, allir þingmenn stjórnarflokkanna, og neita allt í einu að gera það sem við vorum öll til í að gera í gær.

Ég tók eftir því, frú forseti, að Birgir Ármannsson er hættur að spjalla við dimmiterandi stúdentsefni úti á Austurvelli og kominn aftur í hús. Er að vænta einhverra frétta af því hvenær þessum þingfundi verði frestað svo við getum leyst þetta mál? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)