152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Klukkuna vantar tíu mínútur í fjögur á föstudegi. Frá því í morgun höfum við í stjórnarandstöðu óskað eftir því að gert verði hlé á þessum þingfundi til þess að reynt verði að komast að einhverri niðurstöðu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að skipuð verði formleg rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir sölu á hlut almennings í Íslandsbanka. Þetta er skýlaus krafa vegna þess að rannsóknarnefnd Alþingis, sem styðst við lög um rannsóknarnefndir Alþingis, hefur víðtækar heimildir til rannsókna, getur kallað fólk í skýrslutöku og mæti fólk ekki í skýrslutöku er hægt að láta sækja það. Þetta er mjög sambærilegt eins og þekkist í sakamálalögunum. Þetta eru miklu víðtækari heimildir en ríkisendurskoðandi hefur fyrir utan það að settur ríkisendurskoðandi er almennur starfsmaður hjá því embætti sem á sitt starf og sitt lífsviðurværi undir því að gera ekkert í óþökk (Forseti hringir.) yfirmanna sinna, sem er jú ríkisstjórn Íslands. Við erum ekki með ríkisendurskoðanda sem er kosinn (Forseti hringir.) af Alþingi. Gerum hlé á þessum fundi og komumst að niðurstöðu.