152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[16:01]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að spyrja hvort það hafi ekki örugglega heyrst í okkur hér í þingsalnum sem höfum nú í heilt síðdegi staðið hér og óskað eftir því að á okkur sé hlustað og boðað til fundar með þingflokksformönnum og fundin lausn á því hvernig við stofnum rannsóknarnefnd Alþingis um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka eins og hér hefur verið rætt í allan dag. Ég ætla að leyfa mér að halda í vonina enn um sinn en ég verð að viðurkenna að þessi vinnubrögð og þvergirðingsháttur eru ekki til þess fallin að létta þingstörfin og ekki til þess fallin að gefa almenningi í landinu von um að það eigi að efla traust á þessu ferli og taka af allan vafa, eða réttara sagt að upplýsa allt sem gert var í ferlinu þegar hlutur ríkisins í Íslandsbanka var seldur.

(Forseti (OH): Forseti vill aðeins segja það að forseti heyrir það sem hv. þingmenn segja.)