152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

00hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[16:15]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Verð á hlutabréfum Íslandsbanka er í dag 128 kr. Tilboðsverðið sem hinir hæfu fjárfestar fengu að kaupa á var 117 kr. Miðað við þetta varð almenningur af 5 milljörðum kr. vegna þessara hrakfalla. Það er hægt að gera ansi margt fyrir 5 milljarða kr. og það er líka hægt að gera ansi margt fyrir 700 milljónir sem fóru í þóknanir til verðbréfamiðlara.

Flokkur fólksins hefur ítrekað mælt fyrir breytingartillögu við fjárlög um að auka fjárveitingar til lífeyrisþega almannatrygginga um mun minni fjárhæðir en 5,7 milljarða kr., en þeim hefur umsvifalaust verið hafnað vegna þess að ekki séu til peningar fyrir slíku. Samt er hægt að henda 5,7 milljörðum í vaskinn af því að það er eins og fólk gerir á Wall Street. Það er kannski ekkert skrýtið að ríkisstjórnin vilji ekki rannsóknarskýrslu heimilanna en ég krefst hennar.