152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mér þykir mjög miður að þær upplýsingar sem þegar hafa komið fram um þær brotalamir sem hafa verið á þessu máli skuli ekki vera nægilegt „hint“ til þess að meiri hlutinn samþykki að hér verði eiginleg rannsóknarnefnd setti á laggirnar til að skoða málið. Það er það sem þetta snýst um. Þetta snýst ekki um vantraust eða traust á Ríkisendurskoðun per se heldur um mismunandi valdheimildir sem þessi tvö úrræði geta beitt. Ég verð að segja að ég sveiflast á milli þess að vera algerlega brjáluð og verulega vonsvikin, fyrst og fremst vegna þess að ég styð þessa sölu. Ég studdi þessa sölu. Það fellur með minni hugmyndafræði. Ég treysti því að stjórnvöld, að ráðherra og stjórnvöld hefðu eitthvað lært og ætluðu að vanda sig. Til vara treysti ég því að Alþingi stæði undir nafni með sitt eftirlit. (Forseti hringir.) En hér erum við (Forseti hringir.) í minni hlutanum og getum ekki fengið meiri hlutann til að stíga það skref (Forseti hringir.) að láta rannsóknarnefnd beita öllum þeim valdheimildum sem hún hefur til þess að komast í botn í þessu máli hratt og örugglega (Forseti hringir.) og læra eitthvað af þessu. Þetta er ótrúlegt.

(Forseti (BLG): Forseti minnir fólk á að spjall í hliðarsölum hefur truflandi áhrif og myndatökur eru almennt séð ekki leyfðar í þingsal.)