152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:40]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það eru stór orð sem falla hérna, kannski venju samkvæmt. Ráðherra er ítrekað sakaður um lygar. Það eru stór orð og ég tók eftir því að hæstv. forseti taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það. Ég ætla bara að ítreka það sem ég hef sagt hér. Ég held að það sé skynsamlega að verki staðið að fela óháðum aðila sem vinnur í umboði þingsins og á ábyrgð þingsins að gera þá úttekt sem hann hefur núna tekið að sér og á grundvelli þeirrar úttektar, leiði hún í ljós frekari þörf eða að eitthvað athugavert hafi komið í ljós, þá mun ég standa við það að styðja tillögu um að sett verði á fót rannsóknarnefnd á vegum þingsins (Forseti hringir.) samkvæmt lögum. Það stendur. Ég vil minna þingheim á (Forseti hringir.) að auk þessa hefur þingið marga aðra kosti til þess að kynna sér málið, m.a. á opnum fundi sem boðaður hefur verið, að ég best veit, hjá fjárlaganefnd með stjórn Bankasýslunnar.