152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:53]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á að það er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem er vörslumaður ríkiseigna. Það er hann sem ber ábyrgð á því að lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sé fylgt. Það er hann sem ber ábyrgð á því að markmið þeirra laga séu uppfyllt. Eins og ég fór yfir áðan, af ákveðinni vanstillingu sem ég ætla ekki að gerast sekur um hér aftur, kemur fram í 4. gr. laganna að þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skuli Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur svo ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað. Nú liggur fyrir að fjármálaráðuneytið fékk ekki upplýsingar um tilboð og þá sem gerðu tilboð. Ráðuneytið bjó ekki yfir þeim upplýsingum, hafði ekki fengið þær frá Bankasýslunni (Forseti hringir.) þegar fjármálaráðherra, vörslumaður ríkiseigna á Íslandi, samþykkti söluna. Þetta er ótrúleg staðreynd. (Forseti hringir.) Þetta er ráðherrann sem hefur yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur, (Forseti hringir.) ber ábyrgð í þessum málaflokki þótt hann reyni stöðugt að benda á Bankasýsluna og segja að ábyrgðin liggi þar. (Forseti hringir.) Það er alveg skýrt, ábyrgðin liggur þarna og þetta er fúsk. (Forseti hringir.) Þetta er ótrúlegt fúsk.

(Forseti (BLG): Forseti minnir á ræðutíma.)