152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það kemur á óvart hversu lítinn áhuga Sjálfstæðisflokkurinn sýnir þessu máli því að það er svo mikið undir. Það er m.a. það mikilvæga mál að við höldum áfram á ábyrgan gegnsæjan hátt að losa um hlut ríkisins í Íslandsbanka. En það er verið að klúðra því. Það er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins líka. Það er ekki og verður ekki hægt að halda áfram með þetta ferli ef það er sama tortryggni úti í samfélaginu og er núna. Það er verið að torvelda okkur þessi skref. Ég veit að þetta er búið að vera erfið vika fyrir ríkisstjórnarflokkana. Þetta er búið að vera einna erfiðasta vikan alla vega á þessu kjörtímabili og jafnvel síðasta líka. Þetta virkar svolítið þannig núna í lok vikunnar að þá eru Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur að tala við hvor annan og segja: Þú strýkur mér, ég strýk þér. Þá verður allt í lagi. VG meitlar þetta síðan í stein. (Forseti hringir.) Mér finnst það ekki smart pólitík en ég hef það á tilfinningunni (Forseti hringir.) að þið látið stóra málið algerlega verða eftir og hendið því út af borðinu, (Forseti hringir.) og það er að skapa traust á þessu ferli, skapa traust á því að við getum haldið áfram með söluferlið í bönkunum. (Forseti hringir.) En það er verið að rýra og eyðileggja það traust, eyðileggja það ferli og það er í boði Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Og VG.)(Gripið fram í: Heyr, heyr.)