152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Í þessu ferli hefur töluvert verið gagnrýnt, og skiljanlega og réttilega, að aðilar sem hafa fengið það hlutverk að bjóða út bréfin fyrir hönd ríkissjóðs, fyrir hönd okkar allra, hafi sjálfir keypt í bréfunum. Þetta er náttúrlega ævintýralega hræðilegt, algerlega sturlað dæmi. Þetta hefur mikið verið gagnrýnt. Við erum spurð: Hvers vegna rannsóknarnefnd, hvers vegna ekki bara ríkisendurskoðanda? Ríkisendurskoðandi getur ekki boðað þessa aðila, þessa einkaaðila sem voru fengnir til að hringja í vini sína og sjálfa sig og þiggja þóknun fyrir það, mögulega að hringja í sjálfa sig og bjóða sér hlut, að kaupa hann, og borga sér svo fyrir það, ríkisendurskoðandi getur ekki kallað þá í skýrslutöku, getur ekki knúið fram skýrslutöku. Það getur rannsóknarnefnd Alþingis gert. Til þess hefur hún heimild. Hún hefur líka heimild til þess að veita þeim ríkari vernd uppljóstrara til að koma upp um misferli ef það var til staðar. (Forseti hringir.) Það getur ríkisendurskoðandi ekki gert. Stærstu leikendurnir í þessu hneyksli (Forseti hringir.) eru þessir sömu aðilar sem voru fengnir þarna inn, að undanskilinni ábyrgðinni sem liggur hjá ráðherra. Ríkisendurskoðun nær engum puttum í þá. Það gerir hins vegar rannsóknarnefnd Alþingis og þess vegna (Forseti hringir.) vill þessi meiri hluti ekki fá rannsóknarnefnd Alþingis.