152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:59]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum öll sammála um að við séum ekki að glíma við traust og trúverðugleika á ferlinu varðandi sölu á bankanum, heldur það hvort við ætlum með trúverðugum hætti að gera upp ferlið, að það sé brýnasta viðfangsefni okkar núna. Við erum að tala um sölu upp á rúma 52 milljarða kr. Þá skiptir auðvitað öllu máli að vel sé að verki staðið. Ég nefndi hérna fyrr í dag að það er verið að vísa til 3. gr. laga um meginreglur um sölumeðferð en mér finnst 4. gr. líka skipta máli þar sem segir að þegar tilboð liggi fyrir skuli Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á tilboðunum. Ráðherra fær rökstutt mat í hendurnar og það er hans að taka ákvörðunina í kjölfarið. Ábyrgðin, fagleg og pólitísk, er þess vegna algerlega hjá ráðherra í þessu máli (Forseti hringir.) og það er hans að svara fyrir það hvert aðgengi hans var að upplýsingum. (Forseti hringir.) Leit hann á þessi gögn, skoðaði hann þessi gögn, rýndi hann þessi gögn, (Forseti hringir.) blessaði hann þessi gögn? Eða leit hann kannski ekkert á þau?