Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrir rúmu ári hófumst við handa við að losa um hlut ríkisins í Íslandsbanka. Málið var mikilvægt og tímabært, enda eignarhald íslenska ríkisins í bankakerfinu það umfangsmesta í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Eftir vandaðan undirbúning var ráðist í frumútboð síðasta sumar og Íslandsbanki skráður á markað. Gott verð fékkst fyrir selda hluti, eftir stóð dreifður eigendahópur og bankinn varð fjölmennasta almenningshlutafélag landsins.

Annað skrefið var stigið núna í mars þegar 22,5% hlutur var seldur á tæpa 53 milljarða. Verðið var meira en 50% hærra en í fyrra, en eftir vel heppnaða skráningu á markað hefur bankinn hækkað um 100 milljarða kr. með tilheyrandi ábata fyrir ríkissjóð. Hluthafar eru yfir 15 þúsund talsins og eigendahópurinn dreifður, en langstærstir eru lífeyrissjóðir og aðrir langtímafjárfestar. Fimm stærstu hluthafar bankans á eftir ríkissjóði eru LSR, lífeyrissjóðurinn Gildi, Capital Group og Lífeyrissjóður verzlunarmanna. Samsetningin er svipuð þegar farið er lengra niður listann, en alls eiga fjórtán stærstu hluthafarnir um 77% í bankanum.  

Samandregið er ábati ríkisins af eign sem það fékk að 95% hlut í hendurnar án endurgjalds, sem stöðugleikaframlag úr slitabúi Glitnis, nærri 300 milljarðar þegar horft er á arðgreiðslur, söluandvirði hluta og eftirstandandi hlut. Þetta er stóra samhengi hlutanna og það munar sannarlega um minna. Vel heppnuð sala spilar stórt hlutverk í nýlegri fjármálaáætlun þar sem við byggjum á traustum grunni síðustu ára, höldum áfram kröftugri uppbyggingu og vindum ofan af hallanum eftir heimsfaraldur. Slíkur árangur næst ekki í tómarúmi.

Virðulegi forseti. Við erum ekki bara hér til að ræða þessa stóru mynd. Það er jákvætt og eðlilegt að við förum yfir söluferlið allt og ræðum um staðreyndir málsins. Aðdragandi útboðsins hófst þann 20. janúar sl. þegar fjármála- og efnahagsráðuneytinu barst tillaga frá Bankasýslu ríkisins um áframhaldandi sölumeðferð.   Fjallað var um málið í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins þann 4. febrúar, þar sem Bankasýslan kynnti fyrirhugaða söluaðferð og önnur atriði. Eftir afgreiðslu úr ráðherranefnd var það afgreitt með sama hætti úr ríkisstjórn 8. febrúar. Tveimur dögum síðar óskuðum við umsagna fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, auk Seðlabankans með bréfum þess efnis. Sama dag birti ráðuneytið greinargerð vegna framhalds sölunnar.

Málið var ítarlega kynnt hér í þinginu, fyrir þingnefndum, m.a. á fundum með Bankasýslu ríkisins. Umsagnir nefndanna bárust á fyrstu dögum marsmánaðar, þar sem mælt var með því að hefjast handa við sölu í samræmi við tillögu og aðferðafræði sem lagt hafði verið upp með af hálfu Bankasýslunnar. Þann 18. mars var formlega ákveðið að hefja söluferlið, en Bankasýsla ríkisins réðst í útboðið fjórum dögum síðar, þann 22. mars. Upphaf útboðsins var kynnt með fréttatilkynningu Bankasýslunnar eftir lokun markaða og fjallað um það í flestum fjölmiðlum síðdegis. Útboðið náði til hæfra fjárfesta samkvæmt skilgreiningu laga og gátu allir sem féllu þar undir skráð sig fyrir hlutum.  

Að kvöldi 22. mars barst mér rökstutt mat Bankasýslunnar lögum samkvæmt, þar sem fjallað var um áætlaða útboðsstærð, lokaverð og úthlutun. Þetta upplegg samþykkti ég með bréfi sama kvöld. Öll hafa þessi gögn verið birt opinberlega. Að morgni dags þann 23. mars birtu Bankasýsla ríkisins og ráðgjafar hennar loks fréttatilkynningu um niðurstöðu útboðsins, en alls voru seldir 50 milljón hlutir á genginu 117 krónur á hlut eða samtals fyrir 52,7 milljarða kr. Tilboð bárust frá 209 fjárfestum, og af þeim fengu 207 úthlutun. Varðandi verðið, 117 kr. á hlut, er mikilvægt að hafa í huga að rétt fyrir þetta útboð hafði verið greiddur nokkuð hár arður úr Íslandsbanka sem hefði átt að hafa áhrif þar sem eignir bankans rýrnuðu við útgreiðslu arðsins og þar er viðmiðunardagurinn 18. mars. Þannig að einungis örfáum dögum fyrir útboðið hafði arður verið greiddur. Þegar útboðsgengið er borið saman við eldra gengi verður að taka tillit til þess, og þar munar rétt um 5,95 í gengi. Við getum sagt að til samanburðar við það gengi sem var á markaði fyrir arðgreiðslurnar hafi bankinn verið seldur á því sem myndi jafngilda 122,95. Hvert var gengi bankans þegar tillaga Bankasýslunnar kom til mín? Þá var það 124,6. Hvert var það þegar málið var rætt í ráðherranefnd? Þá var það ráðherranefnd. Þá var það 123,8. Þegar málið var rætt í ríkisstjórn var gengið 123, bara nákvæmlega sama gengi og útboðsgengið sjálft. Þegar við sendum bréf til þingsins var gengið 126. Þegar ég fékk umsögn Seðlabankans var gengið 124. Þegar fjárlaganefnd skilaði var gengið 123,8, nokkurn veginn sama gengi og við seldum á. Þegar efnahags- og viðskiptanefnd sendi umsögn var gengið 121, lægra en í útboðinu. Þannig má sýna fram á það að gengið sem við seldum á var mjög sambærilegt við gengið sem verið hafði vikurnar og mánuðina, kannski sérstaklega, áður en útboðið fór fram. Þetta vil ég segja í tilefni af umræðu sem ég hef orðið var við um að það hafi verið eitthvað sérstaklega lágt gengi. Þegar við horfum til þess magns sem verið var að selja þennan dag þá jafngildir það um 300 daga viðskiptum með bankann og að sjálfsögðu var fyrirséð að það myndi hafa áhrif á samanburð við síðasta skráða markaðsgengi en það frávik var í lágmarki miðað við það sem hafði verið rætt í aðdraganda og það sem við þekkjum annars staðar frá.

Virðulegi forseti. Líkt og sjá má var undirbúningur málsins í samræmi við forskrift í lögum um Bankasýslu ríkisins og lögum um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrrtækjum, en samkvæmt þeim er eiginleg framkvæmd sölunnar í höndum Bankasýslunnar. Þessi lög bæði voru sett í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á sínum tíma eftir nokkurn undirbúning, en í þeim er lögð rík áhersla á armslengd milli stjórnmálamanna og Bankasýslunnar.   Það birtist m.a. í því að Bankasýslan tekur alfarið að sér að tilnefna í stjórnir banka sem ríkið á eignarhlut í og þar með er slitið á öll stjórnmálalegu tengslin við eignarhlutina

Í lagafrumvarpinu um sölu eignarhluta, sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir mælti fyrir á sínum tíma, þá sem fjármálaráðherra, sagði enda eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Með því að fela sérstakri ríkisstofnun, Bankasýslu ríkisins, meðferð eignarhluta ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum og að koma fram með tillögur til ráðherra um sölu þeirra eignarhluta var ætlunin að tryggja hlutlægni við meðferð þessara mála.“

Hlutlægni er í raun og veru eitt aðalatriðið, sérstaklega þegar við förum í útboð.

Lögin bera þessari áherslu skýr merki, en í þeim segir m.a. að Bankasýsla ríkisins skuli annast sölumeðferð, undirbúa sölu, leita tilboða, meta tilboð, hafa umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa, m.a. um söluþóknanir, sem mikið er verið að ræða þessa dagana, m.a. í þinginu, hafa umsjón með samningaviðræðum við væntanlega kaupendur og annast samningagerð.

Virðulegi forseti. Eftir útboðið hafa vaknað spurningar um nokkur atriði, en þar ber þrennt hæst í mínum huga.   Fyrst vil ég nefna mögulega þátttöku starfsfólks söluráðgjafa Bankasýslunnar í útboðinu, söluráðgjafa sem höfðu samið við Bankasýsluna um að taka að sér það hlutverk að tryggja framboð. Það má alveg segja það skýrt að mér þykir slík þátttaka ekki hljóma vel og ég geri ráð fyrir að Seðlabankinn skoði það mál ofan í kjölinn. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það hvernig þau mál voru, ég hef bara tekið eftir umræðunni og hef heyrt að margir lýsa áhyggjum af því að þarna hafi verið hagsmunaárekstrar. Hafi það verið þá er það slæmt og ekki samkvæmt neinni forskrift, hvorki í lögunum, í þinglegu meðferðinni eða samkvæmt þeim skilaboðum sem ég hafði gefið Bankasýslunni og alls ekki heldur samkvæmt nokkru því sem Bankasýslan sjálf hefur lagt upp með.

Í öðru lagi nefni ég umræður um hugsanlega þátttöku aðila sem ekki töldust hæfir fjárfestar að lögum og ég nefni hér hugsanlega þátttöku vegna þess að ég tek eftir því að margir sem eru að tjá sig um þessi mál þessa dagana segja: „möguleg spilling“, „hugsanlegt lögbrot“, og svo halda menn áfram í viðtengingarhætti að tjá sig um þessi mál. Það er kannski, á meðan rannsókn stendur yfir, að gera það en þá eiga menn líka aðeins að halda aftur af sér í æsingnum og gæta sín á því að tala ekki um þessi mál eins og menn hafi fullvissu fyrir því að lög hafi verið brotin eða að hér hafi víða verið pottur brotinn í þessum efnum.

Það sem ég vil segja fyrir mitt leyti um þetta er: Að sjálfsögðu var það grundvallarkrafa, upplegg Bankasýslunnar, fyrirmæli fjármálaráðherra, að eingöngu þeir sem uppfylltu skilyrði gætu tekið þátt. Þetta er augljóst. Það þarf enginn að halda að hann geti komist í ágreining við mig um þetta atriði.

Í þriðja lagi vil ég nefna gagnsæi og upplýsingagjöf en þrátt fyrir ítarlegar kynningar fyrir þingnefndum og birtingu greinargerðar um fyrirhugaða sölu og aðferð þá hefði að mínu áliti mátt kynna ferlið og fyrirætlanir um sölu enn betur, bæði opinberlega og fyrir almenningi. Ég meira að segja velti því fyrir mér hvort þingnefndir hefðu átt að gefa sér lengri tíma vegna þess að það hefur komið mér á óvart að þingmenn sem jafnvel voru hér á nefndarálitum um málið segja að það hafi komið þeim verulega á óvart. (Gripið fram í.) Hér kalla þingmenn fram í og segja: Við fengum ekki tíma. Það er nú þannig að þingnefndir skiluðu löngu eftir þann frest sem ég óskaði eftir að þingnefndirnar virtu og ég gerði engar athugasemdir við það. Ég talaði við formenn viðkomandi nefnda og sagði: Hafið engar áhyggjur, takið þann tíma sem þið þurfið. Það var nákvæmlega það sem gerðist. Ég gerði engar athugasemdir við það. Það voru engin viðbrögð önnur af minni hálfu við því að hafa ekki fengið umsagnir innan tilsetts frests, engin önnur viðbrögð en þau að segja: Takið þann tíma sem þarf.

Sömuleiðis verð ég að segja að það gekk hægt að nálgast og birta upplýsingar í kjölfar útboðsins og því var ýmsum spurningum velt upp á meðan upplýsinga var beðið og mér fannst sumu ósvarað of lengi. Þannig óskaði ég formlega eftir yfirliti yfir kaupendur með bréfi til Bankasýslunnar 30. mars og vísaði m.a. til 3. gr. laga um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum þar sem rík áhersla er lögð á gagnsæi og jafnræði. Yfirlitið barst viku síðar, þann 6. apríl, með þeim formerkjum að óvarlegt væri að gera það aðgengilegt almenningi sökum bankaleyndar. Þá afstöðu hafði stofnunin sömuleiðis kynnt eða viðrað dagana á undan og látið vinna lögfræðiálit fyrir sitt leyti. Samkvæmt bréfi Bankasýslunnar lýsti Íslandsbanki því yfir að hann myndi gera athugasemdir við birtingu upplýsinga um kaupendur úr hópi viðskiptavina bankans nema að fengnu samþykki þeirra. Erlendir ráðgjafar lögðust á sömu sveif og vísuðu til þess að ekki væri hefð fyrir birtingu slíkra upplýsinga. Ráðuneytið tók ekki undir þau sjónarmið. Ég hafði látið skoða þetta sérstaklega innan húss í fjármálaráðuneytinu á meðan beðið var viðbragða Bankasýslunnar og ákvað á endanum að birta þetta yfirlit samdægurs í samræmi við þá niðurstöðu sem ég hafði fengið innan húss hjá mér og eftir eigin skoðun á málinu, og það var sömuleiðis í samræmi við skýra áherslu okkar í ríkisstjórninni á gagnsæi við sölu ríkiseigna.

Fyrir réttri viku síðan ákvað ríkisstjórnin síðan að leggja til að frekari skref yrðu ekki tekin að sinni. Við boðuðum það að við myndum ekki selja frekar hluti í Íslandsbanka án þess að fara ofan í fyrirkomulag sölunnar og boðuðum að lagt yrði til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður. Nýtt fyrirkomulag verði innleitt til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum og standa að sölu þeirra. Ég vil taka það fram að með þessu er á engan hátt sagt að Bankasýslan hafi ekki fylgt lögum eða brotið reglur. Það er heldur ekki verið að halda því fram, með þessum boðuðu áformum ríkisstjórnarinnar, að einhverjir verulegir ágallar hafi verið á framkvæmdinni. Ég hef hér farið yfir það helsta sem mér hefur þótt standa út af en það er til skoðunar, og mér finnst rétt að bíða með yfirlýsingar um það, hvernig taka ber á því þangað til við sjáum til botns í þeirri athugun. Markmið okkar er einfaldlega að koma til móts við ríkar kröfur um gagnsæi og aðkomu þingsins, betur en núverandi fyrirkomulag býður upp á, enda nokkuð einsýnt að það verður örðugt að gera það, mæta þessum víðtæku kröfum, m.a. um gagnsæi, þegar forræði málsins er í þetta miklum mæli falið stofnun.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum nefna að mér finnst umræðan að mörgu leyti hafa verið á nokkrum villigötum undanfarna daga. Talsvert miklu moldviðri hefur verið valdið með yfirlýsingum sem snúast oft um lítið annað en aukaatriði í þessu öllu saman, eins og t.d. hvort haldinn hafi verið formlegur ríkisstjórnarfundur áður en yfirlýsing var gefin hér um daginn. Þetta finnst mér vera að drepa málinu mikið á dreif, ég verð að segja það. Það hefur líka borið mikið á því að menn hafa tekið einstök dæmi sem eru svona flökkusögur og það er í raun og veru ekki hægt að bregðast við slíkum sögum með neinum öðrum hætti en að fela Ríkisendurskoðun einfaldlega að fara ofan í þessa hluti. Hvað á maður annað að gera? Menn geta komið hingað og æst sig yfir því að þeir hafi heyrt eitthvað og séð eitthvað skrifað einhvers staðar, en við verðum að rísa undir því hlutverki sem okkur er falið, að fara faglega yfir málin. Ríkisstjórnin vill ekki standa fyrir neitt annað en að fá öll þessi atriði upp á borð og gaumgæfa ferlið allt, ræða það sem kann að hafa farið aflaga, eins og ég hef verið að nefna hér. En mér finnst of langt hafa verið gengið í því að fullyrða að lykilþættir málsins hafi farið úr skorðum. Og mér finnst mikið vanta upp á að rök séu tínd til til að standa á bak við stóryrði, ég tala nú ekki um þegar hér er farið að tala með ákveðnum hætti um einhvers konar samsæri, meiri háttar spillingu og lögbrot.

Rifja má upp að fyrst var sagt að við hefðum handvalið kaupendur, það hefur margoft komið fram í umræðunni. Þegar það var hrakið komu stjórnarandstæðingar og sögðu að fjármálaráðherra hefði — hefði, sko — með réttu átt að fara yfir listann og þannig handvelja kaupendur með pólitískri athugun á því hverjir væru að kaupa. Ekki treysta stofnun sem sérstaklega var komið á fót til að fara með hlutlægum hætti yfir kaupendalistann heldur fara með pólitískum augum yfir það. Þá finnst mér menn vera komnir algjörlega í fullkominn hring, ég verð að segja það. Er það það sem menn raunverulega vilja? Að einstakir kaupendur verði handvaldir? Ég heyri í umræðunni í þingsal hér í dag, undir fundarstjórn forseta, að menn hafi fundið á listanum nokkra óæskilega. Og það er ekki hægt að gera neitt annað en að leggja saman einn plús einn og fá út tvo um það að ráðherrann hefði átt að fara yfir listann og henda þeim út. Eða hvað eru menn annars að segja? Botn á þessa vísu þarf hér í þinginu í dag.

Í nýafstöðnu útboði voru tilboð á þriðja hundrað og í frumútboðinu skiptu þau tugþúsundum. Telja þingmennirnir raunverulega að markmið laganna hafi verið að ráðherra færi yfir hvert einasta tilboð og veldi bara inn og út? Auðvitað er það fráleit lagatúlkun og stenst enga skoðun þegar lögin og greinargerð eru lesin saman, þar sem það er alveg skýrt að þegar útboðsfyrirkomulag er viðhaft er hægt að fela Bankasýslunni að fylgja hlutlægum viðmiðum um frágang málsins.

Enn er víða vísað í fréttir frá því fyrir páska um að meirihluti fjárfesta í útboðinu hefði selt bréf sín með miklum hagnaði. Þetta var reyndar hrakið af Bankasýslunni og sagt að ekki væri innstæða fyrir öllum þessum fullyrðingum. Innstæða fyrir fullyrðingum var ekki til staðar og þegar bent er á þetta þá koma menn og segja: Ja, það er enn þá vafi um það hvernig þetta var. En það sem stendur upp úr er að það er ekki innstæða fyrir fréttinni vegna þess að upplýsingarnar, sem reynt var að túlka, var verið að misskilja. Eins og ítrekað hefur komið fram er hið rétta að meiri hluti kaupenda hefur haldið hlut sínum eða bætt við sig og fjöldi hluthafa hefur aukist frá útboðsdegi. Ef það væri þannig að svo mikill flótti hefði orðið úr bankanum, að allir ætluðu að innleysa svona mikið þennan skjótfengna hagnað af því að hafa tekið þátt í útboðinu, hvernig stendur þá á því að hluthöfunum fjölgar? Og höfum eitt í huga í þessu sambandi: Hver hefur hagnast mest á því að gengi bréfanna hefur hækkað eftir útboðið? Ég flyt ykkur fréttir: Það er ríkissjóður Íslands sem heldur á 42,5% hlut. Hann hefur hagnast gríðarlega á því að hafa framkvæmt útboðið með þeim hætti að ekki skapaðist markaðsröskun eftir að útboðið hafði verið framkvæmt og bréfin héldu áfram að hækka ofan á þá 100 milljarða sem þau höfðu áður hækkað um síðastliðið ár.

Ég get haldið áfram að hrekja hér ýmislegt sem hefur verið í umræðunni en ég verð að láta staðar numið. Ég fagna því að fá tækifæri til að ræða þetta mál hér í þinginu. Ég hvet menn til að halda sig við staðreyndir, gefa þeim stofnunum sem við höfum valið okkur með lögum til að fara yfir þætti eins og þessa tíma og sýni þeim virðingu en lýsi því ekki yfir að þær séu ekki hæfar til þess að framkvæma það verk. Ég óttast ekki þá skoðun þegar að því kemur.