Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:27]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í niðurstöður útboðsins. Hann stendur hér í ræðustól og talar um að salan hafi lukkast vel og raunar með miklum ágætum, samhliða því sem forystumenn stjórnarflokkanna hafa lagt fram tilkynningu þess efnis að í beinu framhaldi af þessari sölu verði nú ekki ráðist í frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka að sinni. Fyrir þau okkar sem vorum hlynnt þessari sölu er þetta mjög alvarleg afleiðing af framkvæmdinni, að afleiðingin sé sú að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að halda áfram. Er það ekki stóra svarið um það hvernig til tókst að ríkisstjórnin þarf að hætta við fyrirhugaða og frekari sölu, samhliða því að ríkisstjórnin hefur síðan ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður? Helstu afleiðingar þessa útboðs af hálfu ríkisstjórnarinnar eru þessar tvær: Ekki frekari sala, Bankasýslan, lögð niður. Hvernig má það þá vera að hæstv. ráðherra standi hér í ræðustól, að vísu ögn pirraður, og haldi því fram að hér hafi allt lukkast með miklum sóma?