Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið síðan ég sótti tíma í lögskýringum en það er ekki alveg búið að fyrnast og fenna yfir það allt saman. Ég heyri að hv. þingmaður virðist vera búinn að sökkva sér í lögskýringar mjög duglega, en ég verð að segja alveg eins og er að hann misskilur í grundvallaratriðum þann texta sem hann les hér upp þegar hann segir: Við erum stödd í tilboðssölu sem fjallað er um í lögunum. Þetta er bara rangt. Þetta er misskilningur. Ég ætla ekki að fara að rekja það í löngu máli hér, en í vikunni gaf lögfræðingur Bankasýslunnar út álit um þetta atriði og þar er þetta nokkuð skynsamlega rakið að mínu áliti. Það er einmitt þegar menn fara í almennt útboð eða framkvæma útboð sem líkist því sem er ekki ástæða til að fara ofan í hvert og eitt tilboð og skoða skilyrði þeirra. Hérna verður að hafa í huga að við erum í raun og veru með ákveðnum hætti í lagalegum skilningi í öfugri tilboðsgerð — já, hv. þingmaður getur hlegið, lögspekingurinn — vegna þess að ríkið er búið að segja hver skilyrðin eru. Þú verður að vera hæfur fjárfestir, þetta er verðið og, eins og segir einhvers staðar á enskunni, „take it or leave it.“ Ef þú á hinn bóginn uppfyllir skilyrðin þá fá allir að taka þátt. Það þarf bara hlutlæg skilyrði. Ef þú uppfyllir hlutlægu skilyrðin og ert tilbúinn til að greiða uppsetta verðið þá munum við selja þér og við munum ekki hlusta á nein tilboð. Það þarf ekki að fara yfir einhver tilboð. Þú þarft bara að uppfylla skilyrðin. Um það snýst þetta mál. Að öðru leyti misskilur hv. þingmaður bara því miður lagatextann.