Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir að koma hingað upp og halda einlæga, heiðarlega og málefnalega ræðu þar sem maður fann hér í þingsal fyrir ákveðinni örvilnan eða angist, og pínulitlu pirrelsi undirliggjandi, yfir því að þetta hafi klúðrast. Það er nákvæmlega þannig að þetta mál, þetta stóra og mikilvæga mál að mínu mati, ég mun fara yfir það á eftir — að það hafi klúðrast. Hins vegar hefur verið vakin athygli á því að hæstv. ráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins hefur með ákveðnum kjarki dregið fram sín mótmæli við því að fara ætti þessa leið. Spurt hefur verið að því hvort hann hafi vakið athygli á þessu og átt frumkvæði að því innan þingflokks Framsóknar. Ég vona og veit að hv. þingmaður er ekki að brjóta neinn trúnað þó að hann segi okkur það einfaldlega hér að hæstv. ráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins hafi einmitt dregið þetta fram og sett fram sínar skoðanir innan þingflokks Framsóknar. Mér þætti gott ef hægt væri að svara því skýrt: Bara já eða nei, gerði hæstv. ráðherra þetta? Með þessu er, held ég, ekki verið að brjóta neinn trúnað. Þetta er mikilvægt í stóru myndinni.