Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir ræðuna sem hún flutti áðan. Aðeins að pólitískri ábyrgð vegna þess að það var komið inn á það í ræðunni hérna hver pólitíska ábyrgðin væri í þessu máli og ég ætlaði eiginlega varla trúa mínum eigin eyrum þegar það kom fram. Það felst pólitísk ábyrgð í því að birta lista yfir kaupendur, var sagt áðan af hv. formanni fjárlaganefndar. Það að upplýsa almenning um það hver er að kaupa eign almennings er engin pólitísk ábyrgð. Það er bara sjálfsagt mál og á að vera eðlilegur partur af öllu svona söluferli alltaf þegar við erum að höndla með eigur almennings. Síðan er sagt af hálfu Bankasýslunnar: Útboðið fór eins og lýst var, frá upphafi til loka, í nánu samstarfi við stjórnvöld sem voru ítarlega upplýst um öll skref sem tekin voru. — Frá upphafi til loka, í nánu samstarfi við stjórnvöld sem voru ítarlega upplýst um öll skref sem tekin voru. — Pólitíska ábyrgðin samkvæmt þessu hlýtur að liggja líka hjá þeim sem fengu nákvæmlega þessar upplýsingar frá Bankasýslunni. Hver er þá pólitísk ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra í ljósi þessa?