Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:50]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég staldra auðvitað við þetta orð sem hér hefur verið látið falla, moldviðri, og sömuleiðis það að við eigum ekki að vera að fella stóra dóma úr ræðustól Alþingis. Mér líður pínulítið eins og við eigum hreinlega ekkert að vera að spyrja neinna spurninga hér í ræðustól Alþingis. Eini stóri dómurinn sem hefur fallið í þessu máli er sá að tekin var ákvörðun um að sakfella Bankasýsluna og leggja hana af vegna þess að salan þótti það mikið klúður. Það er stóri dómurinn sem hefur fallið. Síðan er það þessi rosalega áhersla sem menn eru alltaf með á forsöguna, að ríkið hafi fengið þessa eign fyrir ekki neitt og gert úr henni einhver svakaleg verðmæti. Almenningur í þessu landi borgaði auðvitað svakalega mikið með óbeinum hætti fyrir þennan banka í bankahruninu, eins og við þekkjum mætavel. Þannig að þessi forsaga er engin réttlæting fyrir því að illa hafi tekist til með söluna. Það er hið eina sanna moldviðri sem er verið að þyrla upp. Og í framhaldi af því sem hv. þm. Haraldur Benediktsson segir um hvert hlutverk ríkisins eigi að vera gagnvart atvinnufyrirtækjunum (Forseti hringir.) er þá ekki grátlegasti hluturinn við þessa sölu sá að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að koma því þannig fyrir í miðju einkavæðingarferli að búið er að festa í sessi helmingseignarhlut ríkisins (Forseti hringir.) á Íslandsbanka a.m.k. út þetta kjörtímabil?