Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:56]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Markmiðið er að koma ríkinu frá rekstri — ég er reyndar ekki sammála þessu, ég held að höfuðmarkmiðið sé að það sé traust í samfélaginu og það ríkir ekki traust um þessa sölu. En gott og vel, við getum verið ósammála um það. Hv. þingmaður áttar sig ekki á því af hverju við erum í þessari umræðu í dag. Við áttum m.a. að vera búin að fá minnisblað frá Bankasýslunni sem við gætum verið að ræða hér, en við erum ekki að ræða í dag. Hv. þingmaður segir að öllu sé snúið á haus varðandi það að einhver hafi átt að handvelja og svo hafi hann ekki mátt handvelja og hvað og hvað. Umræðan snerist um það hvort söluráðgjafarnir hefðu handvalið vini sína og síðan hefði fjármálaráðherra bara leitt það hjá sér að 200 nöfn voru mætt á listann og viðkomandi hefði átt að gera athugasemd en ekki endilega velja þá úr. Hér er líka mörgu snúið á haus og talað um moldviðri þegar fólk er bara að reyna að komast til botns í mjög alvarlegu máli. Ég velti fyrir mér: Hvað finnst hv. þingmanni um að erlendir aðilar hafi selt sig út á örskotsstundu sem gerðu það síðast? Hvað finnst hv. þingmanni um að það hafi verið stöður sem hafi verið skuldsettar til að taka snúning í þessu útboði? Og ber enginn ábyrgð á þessum litlu aðilum sem hv. þingmaður er ósáttur við að hafi fengið að kaupa?