Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:00]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Öll kynning fyrir fjárlaganefnd, og ég sagði það í umræðu sem tekin var hér fyrr um sölu hlutabréfa í Íslandsbanka, og þegar við ræddum þetta í fyrra sinn í þessum þingsal, miðaðist að því að hér væru fyrst og fremst stórir fjárfestar á ferðinni sem stæðu með bankanum með þessum hætti. En rétt eins og ég sagði líka var hins vegar ekki útilokað að smærri fjárfestar gætu átt hlut að máli. Ég stend alveg með skilningi hv. formanns fjárlaganefndar á því hvernig við skildum stóra samhengi þessarar aðferðar við sölu, en við verðum að sækjast eftir stórum sterkum eignaraðilum. Og það gekk líka eftir. Umræðan snýst að langstærstum hluta um þá aðila sem halda á mjög litlum eignarhlut og þá aðila sem rifu plástur af sári sem enn er ekki fullgróið í okkar samfélagi, þeim nöfnum sem þar eru. Það hefur væntanlega aldrei nokkur maður hugsað sér að setja það með einhverjum hætti í lög hvernig hægt væri að útiloka þá aðila frá því að eignast slíka hluti í bankastarfsemi á Íslandi í dag.