Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða skýrslu fjármálaráðherra um Bankasýsluna og það verður að segjast eins og er strax að spillingin og ömurlegheitin vella út úr hverri einustu sprungu í þessu máli. Það er ömurlegt til þess að vita að það skuli hafa viðgengist að gengið sé frá þessum málum á þennan hátt. Ef við byrjum t.d. að horfa á kostnaðinn. Það voru 1.382 millj. kr., 1 milljarður og 382 milljónir sem var kostnaður við fyrri úthlutun við sölu til almennings. Nú er talað um 700 milljónir í kostnað. Við erum orðin svo veruleikafirrt hér í þingsal að þegar við tölum um þessar tölur þurfum við að setja þær í eitthvert samhengi. Þetta er ekki bara tala á blaði. Þetta eru gífurlegir fjármunir. Á sama tíma er verið að biðja um nýja krabbameinsdeild á Landspítalanum sem kostar 1.200 milljónir, 1 milljarð og 200 millj. kr. Ríkið þarf bara að leggja fram 800 milljónir. Krabbameinsfélagið ætlaði að setja 400 milljónir á móti og búið að bíða í heilt ár. Félagið fær ekki svar vegna þess að ríkið segist ekki hafa efni á þessu eða eitthvað. En 700 milljónir, ekkert mál. Við erum að selja banka, 700 milljónir, 70 milljónir er of mikið, allt of mikið fyrir sölu á auðseljanlegum hlut, 7 milljónir jafnvel of mikið. Og við höfum heyrt um það að þeir sem eru að fá þetta eða eiga að fá þetta borgað — að þetta hafi runnið í gegnum vasa þeirra og þeir keypt. Notuðu þeir þessa peninga til þess? Eru þeir að fjárfesta samanlagt fyrir nærri 2 milljarða af söluhagnað í bankanum okkar og græða hvað? 200 millj. kr. Engin áhætta. Ríkið borgaði.

Þetta eru spurningar sem við þurfum að leggja fram og við þurfum að fá svör. Við vitum að á sama tíma er búið að selja 60% í bankanum á 108 milljarða. Það kom hér fram. En horfum á gróðann, 23 milljarðar og stefnir í hvað, 30 milljarða? Svo er talað um að við verðum að selja bankann, það sé svo mikil áhætta. Það er orðin þvílík áhætta að eiga banka. Áhættan er ekki að ríkið eigi banka. Áhættan er að ríkið er að selja bankann aftur sömu aðilum og voru hér í bankahruninu. Þar liggur áhættan. Það er engin samkeppni. Það er pottþétt að vera með banka. Bankinn er bara með sína eigin verðskrá. Það er engin samkeppni milli bankanna. Ef við horfum á gróðann hjá þessum bönkum þá er hann alveg gígantískur. Ef við tökum Landsbankann, það eru ekki neinn smágróði hjá Landsbankanum á síðasta ári líka. Bankarnir eru að moka inn peningum fyrir ríkissjóð sem við getum notað í góð málefni. Af 23 milljarða gróða er nú þegar búið að eyrnamerkja 60% af því í vasa annarra en ríkisins. Ef við tökum þessi 60% og reiknum út: Þetta eru 12–13 milljarðar í tíu ár, sama upphæð í tíu ár og við erum komin í 130 milljarða en við erum búin að fá 108, en þá ættum við líka bankann. Við ættum allt. Ef við ættum bankann væri ríkið að fá á tíu árum 230 milljarða með sama ágóða. Það er hægt að gera helling fyrir það.

Á sama tíma og við erum að tala um 700 milljónir, 2 milljarða í kostnað, hundruð milljarða, hvernig er þjóðfélagið? Matvara hækkar í verði upp úr öllu valdi. Mjólkurvörur og kjöt hafa hækkað mun meira en innfluttar vörur á síðasta ári. Það eru mjög miklar hækkanir á matvörum og á síðastliðnu hálfa ári hefur t.d. kjöt hækkað um 7,6%. En fólkið þarna úti sem er fátækt og á nær 6.000 börn, það kom fram á ráðstefnu að svo mörg börn byggju við fátækt — hvað fékk þetta fólk? Það fær ekki einu sinni verðbótahækkun. Ríkisstjórnin var rosalega rausnarleg við það eða 3,6% plús 1%, fór upp í 4,6% í 6,2% verðbólgu. Þetta fólk þarf að herða sultarólina. Á sama tíma segjum við: Seljum banka til vildarvina. Það er allt í lagi. Bankarnir fyrst, gróðamennirnir fyrst, fólkið síðast. Það er eins og áður og lögvitleysan og vitleysan í kringum þetta allt er með ólíkindum.

Eins og ég sagði í ræðu minni fyrr í dag er alveg með ólíkindum að hlusta á málflutning þessarar ríkisstjórnar vegna þess að maður fékk einhvern veginn þá tilfinningu að það eigi að ná að selja þessa gullgæs sem er að gefa virkilega vel. Við þurfum á þessum peningum að halda. Við eigum líka að eyrnamerkja þessa peninga því að það er alltaf verið að tala um að ekki séu til peningar til að hjálpa þeim sem eru fátækir upp úr fátæktinni. Það kostar of mikið, segir Bjarni og hann fullyrti á sínum tíma að það kostaði allt of mikið sú krafa frá fólki að 350.000 skatta- og skerðingarlaust væri lágmarksframfærsla hér á landi. Það kostar ekki mikið. Það er enginn kostnaður á bak við það. Það er fólk á bak við þetta, fólk sem þarf á þessu að halda og á rétt á því. Við sjáum það í öllum þeim tölum sem við erum með hérna. Peningarnir eru til. Þeir fara bara ekki á réttan stað.

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er algerlega kolröng. Hún segir bara: Kaupi þeir sem kaupa vilja Íslandsbanka, selji þeir sem selja vilja Íslandsbanka. Ríkisstjórnin vinnur á meðan að því að það sé tryggt að vinir, vandamenn og bankahrunsmenn fái að vera með.

Flokkur fólksins var í upphafi algerlega á móti því að selja bankann vegna þess að við erum ekki tilbúin, það er of stutt frá hruni. Það kom skýrt fram, sem er ótrúlegur hroki sem fjármálaráðherra sýndi í umræðunni í dag þegar hann fullyrti það — og það sem kannski sló mig líka mikið var að hann fullyrti að hann og Sigmundur Davíð hefðu gengið í það að þeim sem misstu heimili sín hefði verið reddað. Það er bara kolrangt. Ég þekki fullt af fólki sem missti heimili sín. Þetta fólk er á leigumarkaði, borgar okurleigu. Sumir flúðu land en sumir þoldu ekki álagið og afleiðingarnar voru hörmulegar fyrir þá og fjölskyldur þeirra. Okkur ber skylda til að gera það mál upp. Við áttum að vera löngu búin að bæði setja hreinlega á rannsókn á málinu, kryfja það til mergjar hvað varð um þessar eignir, hverjir fengu þessar eignir og gera það upp þannig að fólk sem lenti í þessu fengi raunverulegar bætur. Það gæti komist af okurleigumarkaðnum eða hreinlega gæti komist heim aftur, þeir sem þurftu að flýja land á þessum tíma. Ég var úti á Austurvelli allt bankahrunið og við öll mótmælin og við vitum nákvæmlega hvernig hlutirnir fóru fram. Þetta voru 10.000–15.000 heimili og þarna voru tugþúsundir barna undir. Enginn hefur pælt í afleiðingunum og ekkert hefur verið gert upp og ekkert gert til að kanna hvaða afleiðingar það hafði fyrir fjölskyldur. Hefur einhver séð einhverjar skýrslur um það? Hefur einhver séð einhverjar rannsóknarskýrslur eða úttekt á því hvað varð um fólkið? Hvaða afleiðingar þetta hafði?

Nei, við ætlum bara að selja banka aftur, við ætlum að leika sama leikinn. Eins og ég hef sagt að á meðan ríkið á bankann þá er ekkert alvarlegt að ske. En um leið og við förum að láta hrægammana fá bankana aftur þá segi ég: Guð hjálpi okkur. Við þekkjum það af bankahruninu að þegar þeir sem eru komast inn í þetta, fyrrverandi bankahrunsmenn og aðrir, þegar þeir kaupa, þegar þeir eignast bankann, þá er voðinn vís.