Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég hef ítrekað gagnrýnt hvernig þessi ríkisstjórn, og reyndar síðustu ríkisstjórnir á undan, hafa staðið að einkavæðingu bankanna allt frá því að vogunarsjóðirnir fengu að endurheimta Arion banka og fram á þennan dag. Þessi ríkisstjórn og fyrri stjórnir hafa ekki brugðist mikið við þessari gagnrýni en nú er svo komið að gagnrýni á nýjasta áfangann í þessu ferli öllu hefur orðið til þess að ríkisstjórnin, að sögn, reyndar kom það nú í ljós í dag að það var ekki ríkisstjórnin raunverulega heldur einhverjir ráðherrar, ákváðu að þetta hefði ekki gengið betur en svo að það væri tilefni til að leggja niður Bankasýsluna, nokkrum dögum eftir að sömu ráðherrar lýstu yfir mikilli ánægju með árangurinn. Það hefur ítrekað verið bent á hér í dag og raunar dagana á undan að þetta hafi verið tilkynnt sem áform ríkisstjórnar Íslands en ráðherrum tókst ekki að útskýra það í dag hvers vegna ákvörðun, sem var kynnt af hálfu Stjórnarráðsins sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar, hefði ekki verið kynnt fyrir ríkisstjórn, sem er auðvitað ákaflega sérstakt mál og vekur spurningar varðandi 17. gr. stjórnarskrárinnar og fordæmi sem hafa orðið til við túlkun hennar. Það er líka ástæða til að líta á lög um Stjórnarráð Íslands því að þar er farið yfir þetta nokkuð ítarlega. Ég ætla að leyfa mér að grípa hér niður í 6. gr. í III. kafla þeirra laga, um ríkisstjórn og samhæfingu starfa á milli ráðherra, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnarfundi skal halda um eftirfarandi mál:

1. Nýmæli í lögum, þ.e. lagafrumvörp sem ráðherrar hyggjast leggja fram á Alþingi sem stjórnarfrumvörp, og önnur málefni sem bera á upp fyrir forseta Íslands til staðfestingar, þ.m.t. tillögur til þingsályktana.

2. Mikilvæg stjórnarmálefni. Til mikilvægra stjórnarmálefna teljast t.d. reglugerðir og yfirlýsingar sem taldar eru fela í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar eða ef sýnt þykir að reglugerð eða yfirlýsing geti haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram fjárheimildir eða á efnahagsmál almennt. Til mikilvægra stjórnarmálefna teljast jafnframt m.a. upplýsingar um fundi sem ráðherrar eiga um mikilvæg málefni með aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess ...“

Ég held að ákvörðun um að leggja af Bankasýslu ríkisins hljóti að falla undir flest af þessu og þar af leiðandi er ljóst að með tilliti til þessarar greinar hefði átt að ræða það á ríkisstjórnarfundi áður en tilkynnt var um að ríkisstjórnin væri búin að taka þessa ákvörðun.

Svo er hnykkt á því að það sama eigi við um önnur mál sem ráðherrar óski eftir að bera þar upp. Svo er þetta ítrekað áfram að það þurfi sérstakt minnisblað og ef óskað skuli eftir samþykki ríkisstjórnar eigi að setja það fram í skýrt orðaðri tillögu. Ekkert af þessu var gert.

Í 9. gr. er tekið fram að þótt ráðherra hafi tekið mál upp í ráðherranefnd leysi það hann ekki undan skyldu til að bera mál upp í ríkisstjórn. Reyndar liggur fyrir að þetta mál var ekki einu sinni tekið fyrir í ráðherranefnd um efnahagsmál heldur á einhvern hátt samið um það á milli, að því er virðist, einungis þriggja ráðherra. Þá koma hér upp hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og benda á að ríkisstjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald og hæstv. forsætisráðherra bendir á að hæstv. fjármálaráðherrann hafi komið að ákvörðuninni af því að málið heyri undir hann. Þá dugi það til. Það vekur upp spurningar um með hvaða hætti þessi ákvörðun var tekin af hálfu þessara ráðherra, ekki á ríkisstjórnarfundi augljóslega. En hæstv. fjármálaráðherra sem fer með málaflokkinn fékk að koma að ákvörðuninni. Við fáum e.t.v. betri skýringar á þessu í umræðu hér á morgun.

Það liggur líka fyrir eftir daginn að það er algerlega óljóst hvað tekur við eftir að Bankasýslan verður aflögð. Þrátt fyrir allt tal um armslengdarsjónarmið sem ég heyri hv. stjórnarliða enn státa sig af að hafa viðhaldið með því að vera með Bankasýsluna, þá vitum við ekkert um hvernig þessi armslengdarsjónarmið verði varin í því fyrirkomulagi sem tekur við, enda er ekki vitað hvaða fyrirkomulag á að taka við. Ríkisstjórnin, afsakið, frú forseti, þessir þrír ráðherrar ákveða það að senda út tilkynningu um að Bankasýslan verði lögð af án þess að, að því er virðist, hafa rætt hvað eigi að taka við í staðinn. Svo bæta þeir við að það sé orðið ljóst að ekki verði ráðist í frekari sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, hvað þá í Landsbankanum í framhaldi af þessu og þá ekki beinlínis til marks um að menn séu enn þá stoltir af því hvernig til hafi tekist. Í stefnu Sjálfstæðisflokksins er það þó skýrt að til standi að einkavæða bankana. Þar segir samkvæmt ályktun síðasta landsfundar flokksins:

„Eignarhald á bönkum þarf að breytast. Landsfundur áréttar að engin þörf er á eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum til lengri tíma litið. Ríkið selji eignarhlut sinn í bönkunum.“

Nú er komið annað hljóð í strokkinn að því er virðist en þá tekur við óvissan um það hvernig verði farið með þann hlut sem eftir stendur. Það hefur verið áhugavert að heyra stjórnarliða og hæstv. ráðherra ítrekað státa sig af því eða líta á það sem hið jákvæðasta af öllu í þessari stöðu hvað ríkið á þó enn stóran hlut í Íslandsbanka. Hér hefur hæstv. fjármálaráðherra og fleiri hamrað á því hvað menn eigi að vera ánægðir með að ríkið skuli eiga 42,5% í þessum verðmæta banka á sama tíma og menn fagna því að hitt hafi verið selt. Niðurstaðan um hvernig að þessu var staðið er um margt óljós en það hafa líka vaknað mjög miklar spurningar um ferlið sjálft.

Frú forseti. Ég sé að ég á enn skemmri tíma en ég gerði ráð fyrir. Ég hélt ég hefði korter og næ því ekki að fara yfir nema brot af þessu en ég held að það sé samt ástæða til að nota smátíma í að rifja upp hvernig fjölmiðlar greindu frá þessum áfanga. Hér vitna ég í Morgunblaðið en þar segir 22. mars síðastliðinn:

„Eins og áður var greint frá setti Bankasýsla ríkisins nokkuð óvænt af stað söluferli á að minnsta kosti 20% hlut ríkisins í Íslandsbanka með tilboðsfyrirkomulagi til innlendra og erlendra hæfra fjárfesta, þ.e. fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila, eftir lokun markaða í dag. Um kvöldmatarleytið sendi Íslandsbanki frá sér tilkynningu þar sem fram kom að umsjónaraðilar útboðsins hefðu móttekið áskriftir fyrir 400 milljónum, sem er skilgreind lágmarksstærð söluferlisins og er um 20% hlutur í bankanum ...“

Með öðrum orðum gerðist þetta nokkuð óvænt að mati Morgunblaðsins. Þegar tilkynnt var um þetta eftir lokun markaða og sama kvöld, um kvöldmatarleytið, var tilkynnt að búið væri að ná í þetta 400 milljarða mark. Það vekur spurningar um hvernig menn völdust í þetta. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að þetta væri mjög einfalt, ef menn hefðu uppfyllt skilyrðin þá hefðu þeir fengið að bjóða. Það er hins vegar ekki alveg á hreinu hvort allir sem uppfylltu þau skilyrði hafi verið meðvitaðir um þetta á þessum klukkustundum sem liðu þarna áður en allt var orðið klappað og klárt.

Frú forseti. Ég var með fjölmargt annað sem ég hefði viljað fara yfir hér en það verður líklega bíða morgundagsins því þá heldur þessi umræða áfram og eitt og annað sem væri gott að fá álit hæstv. forsætisráðherra á. Að lokum vil ég þó nefna eitt atriði í viðbót og það er varðandi kostnaðinn við söluna, þóknunina. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gagnrýnt að hún hafi verið heldur há, líklega 721 milljón, ef ég man rétt, en hver var þóknunin síðast í fyrri áfanganum? Yfir 1.700 milljarðar og var lítið rætt um það. Það var á Covid-tímum. En nú er ríkisstjórnin ekki lengur í skjóli Covid og tímabært fyrir hana að standa reikningsskil verka sinna.